151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[18:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast ekki við að leggja neinar gildur fyrir hv. þingmann eða þingmenn Miðflokksins í þessu efni. Mér sýnist þeir gera það sjálfir með málflutningi sínum. Vandi hv. þingmanns er ekki gildrur Pírata heldur að hv. þingmaður er með lélegan málstað og færir fyrir þeim málstað afskaplega léleg rök. Það er vandi hv. þingmanns. Þegar bent er á það að kannabisefni séu bönnuð og hafi samt orðið sterkari og alls konar hliðaráhrif orðið sökum bannsins er það enginn útúrsnúningur, virðulegur forseti, það er bara ábending um að við höfum búið við lög núna í áratugi sem við höfum mikla reynslu af og reynslan er einfaldlega ekki góð. Það er vandi hv. þingmanns, málstaðurinn sem hann er að berjast fyrir. En ég verð líka að segja að ég varð pínu ringlaður yfir ræðu hv. þingmanns vegna þess að mér fannst rökstuðningurinn á köflum á skjön við niðurstöðurnar og sér í lagi í seinna andsvari hv. þingmanns við hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur. Hv. þingmaður sagðist aldrei hafa sagst vilja refsingar fyrir neyslu. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki til þess að hafa heyrt hv. þingmann kalla eftir refsingu fyrir neyslu. En áttar hv. þingmaður sig ekki á því að andstaðan við þetta frumvarp er ákall um refsingar? Tillagan felur í sér að afnema þessar refsingar þannig að eftir ræðu hv. þingmanns og rökin sem hann færði fyrir sinni niðurstöðu, sem er að mínu mati röng, þá verð ég að spyrja hv. þingmann hvort hann sé hlynntur málinu eða ekki. Hann segist vera á móti refsingum, ef ég skil hann rétt, vonandi er það ekki einhver útúrsnúningur eða gildra, en samt er hann á móti frumvarpinu. Hver er ástæðan, virðulegi forseti? Er það í stefnu Miðflokksins að vera á móti málum bara af því að þau koma frá ríkisstjórninni? Er það málið? Hvað er málið, virðulegi forseti? Af hverju getur hv. þingmaður ekki stutt málið þegar hann segist í orði vera hlynntur markmiðum þess?