151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[18:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég finn mig knúinn til að taka hér fyrir eitt sérstakt atriði sem mér finnst að verði að koma fram. Ég tók nefnilega eftir því í ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að hann sagðist aldrei hafa séð eiturlyf, eins og hann kallar þau, eða þeirra neytt, vegna þess að þau eru ólögleg. Þá nefndi hv. þm. Sigurður Páll Jónsson, annar þingmaður Miðflokksins, að hv. þingmaður Pírata væri vel kunnugur undirheimunum eða eitthvað því um líkt, vel inni í undirheimamálum, eins og hann orðaði það. Ég hef nefnilega tekið eftir einu, virðulegi forseti, samanber að ólögleg vímuefni eru ólögleg á Íslandi, að það er auðvitað ákveðið tabú að viðurkenna að maður hafi einhverja persónulega reynslu, eitthvert persónulegt vit á þeim. En þannig er það nú bara í okkar samfélagi, virðulegur forseti, að það er ekkert mál að redda sér vímuefnum eða neyta þeirra án þess að tekið sé eftir því. Það er bara ekkert mál, virðulegur forseti. Og þegar fólk er komið út í ógöngur með neyslu er það venjulega búið að vera í neyslu sem hefur ekki verið til trafala fyrr en á þeim punkti. Það er tiltölulega sjaldgæft að fólk fari beint í einhver stórkostleg vandamál af því að neyta vímuefna. Iðulega tekst að nota þau hóflega og án þess að hafa neikvæð áhrif á lífið í einhvern tíma áður en viðkomandi missir stjórn á neyslunni og hún fer að hafa neikvæð áhrif á lífið svo telja megi.

Ég ætla samt að viðurkenna það hér, virðulegi forseti, að ég hef séð vímuefni. Ég hef séð ansi margar tegundir af vímuefnum og ég hef séð fólk neyta þessara vímuefna og ég hef verið viðstaddur atvik þar sem fólk hefur farið sér að voða. Ég hef sjálfur orðið vitni að því að fólk veigri sér þá við að leita sér hjálpar af ótta við lögregluna. Ég hygg að fleiri hér á þingi hafi sömu reynslu og þori ekki að tala um það af ótta við að vera stimplaðir þannig að þeir séu vel inni í undirheimamálum eða eitthvað því um líkt, en, virðulegi forseti, það er nú bara þannig að fullt af fólki í þessu samfélagi hefur meira vit á vímuefnamálum vegna persónulegrar reynslu en hv. þingmenn Miðflokksins sem tala eins og að sé göfugt að hafa ekkert vit á málaflokknum. Það er ekki göfugt, virðulegi forseti. Það er ekkert göfugt að nota vímuefni heldur, en það er ekki göfugt að hafa ekki þekkingu á efninu sem við erum að setja lög um. Ég vildi bara koma þessu að vegna þess að mér finnst það einkenna umræðuna frá Miðflokknum að hann hefur afskaplega litla þekkingu á efninu. Í andsvörum í dag hefur komið ítrekað fram að eitthvað komi þeim á óvart eða þeim kennt eitthvað í andsvörum sem eru ekki nýjar upplýsingar og kemur engum á óvart sem hefur þó jafnvel bara fræðilegt vit á efninu.

Ég vil líka nefna ég er ekki að segja að það sé nauðsynlegt að hafa neytt vímuefna eða hafa séð þau eða hafa séð einhvern nota þau eða eitthvað því um líkt til þess að hafa vit á efninu. Ég er bara segja að það er ekki göfugt að hafa ekki vit á efninu. Það er ekki göfugt, það er ekki aðdáunarvert. Það er ekki eitthvað sem eigum að standa upp og klappa fyrir og láta þá eins og viðkomandi sé einhvern veginn betur í stakk búinn til að taka afdrifaríkar ákvarðanir fyrir hinn almenna borgara sem stendur frammi fyrir valinu um að nota eða nota ekki vímuefni.

Ég vil hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að leggja þetta mál fram. Ég hef í gegnum tíðina oft gagnrýnt Vinstrihreyfinguna – grænt framboð fyrir að vera mjög forræðishyggjusinnuð, sem hún hefur nú verið á köflum, verður að viðurkennast, en ég dáist að því að sjá hvernig vitundarvakning hefur átt sér stað í samfélaginu þannig að flokkar sem teljast íhaldssamir eins og Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Sjálfstæðisflokkurinn og jafnvel Framsóknarflokkurinn, eða alla vega einstaka þingmenn hans, sjái ljósið í þessum efnum. Það er framfaraskref og ber að þakka því að það er ekki sjálfsagt, eins og við þekkjum því miður, að fólk skipti um skoðun þegar það tekur þátt í umræðu eða heyrir af nýjum rökum eða nýjum gögnum. En það er gleðilegt að sjá að svo sé. Það er gleðilegt að sjá að það þurfi Miðflokkinn til að andmæla þessu máli, það þurfi þvílíka íhaldshyggju að Miðflokkurinn stendur einn í andstöðu, sýnilegri alla vega, við þetta mál hér á Alþingi. Það er framför að þurfa að leita það langt í íhaldsátt til þess að finna þessu máli eitthvað til foráttu, þótt reyndar hafi mikið af gagnrýni flokksins snúið að útfærsluatriðum og tæknilegum hlutum eins og hvort eitthvað sé í reglugerð eða lögum, hvort til staðar sé einhver áætlun fyrir meðferðir og forvarnir, sem er allt umræða sem er þess virði að taka.

Þó að ég gæti alveg ítrekað ræður sem voru haldnar fyrr í dag um það hvernig ríkisstjórnin tekur stundum mál og gerir þau að sínum þá verð ég að segja það fyrir mitt leyti, hvað þetta mál varðar, að það er mér alveg að meinalausu. Fyrir mér er sigurinn unninn með því að þetta er tiltölulega óumdeilt, þykir ekki róttækt lengur í það minnsta, eins og þótti 2013, og að það líti raunverulega út þannig að við munum ná þessu máli í gegn á þessu þingi. Því fagna ég og þakka enn og aftur hæstv. heilbrigðisráðherra.