151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

644. mál
[19:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, um iðnaðarhamp. Þetta frumvarp er samið af starfshópi sem heilbrigðisráðherra skipaði í júní 2020 og falið var að endurskoða lög nr. 65/1974 með tilliti til ræktunar og framleiðslu á iðnaðarhampi. Niðurstaða starfshópsins var að færa stjórnsýslu og verkefni í tengslum við málefnið, þ.e. leyfi til innflutnings á fræjum tegundarinnar Cannabis sativa, þ.e. hampfræ, frá Lyfjastofnun til Matvælastofnunar. Þá skal tekið fram áður en lengra er haldið að frumvarpið fjallar ekki um svokallaða CBD-olíu eða meðferð á henni.

Vorið 2020 var í fyrsta sinn á Íslandi heimilaður innflutningur, meðferð og varsla fræja af þessari tegund í þeim tilgangi einum að rækta iðnaðarhamp. Skilyrði fyrir innflutningi á fræjunum eru þrenns konar og eru þau sett fram í reglugerð um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni. Skilyrðin snúa að THC-magni fræjanna, skráningu yrkis á lista framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og því að skilyrði reglugerðarinnar um eftirlit með sáðvöru séu uppfyllt. Þessi skilyrði eru sett með stoð í lögum um ávana- og fíkniefni, en við gildistöku reglugerðarinnar var ákveðið að stofna starfshóp sem falið var að endurskoða lögin með tilliti til ræktunar og framleiðslu á iðnaðarhampi.

Samkvæmt gildandi ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni þurfa aðilar sem ætla að flytja inn þessi fræ, sem nota má við iðnaðarhampsrækt, og hefja ræktun að sækja um undanþágubeiðni til Lyfjastofnunar, en hlutverk þeirrar stofnunar er fyrst og fremst að hafa eftirlit með innflutningi, útflutningi, vörslu og annarri meðferð á efnum sem nýtast við framleiðslu lyfja, löglegra og ólöglegra, en á sama tíma annast Matvælastofnun eftirlit og vottun um plöntuheilbrigði við innflutning plantna og plöntuafurða ásamt eftirliti með sáðvöru. Eftirlit með plönturækt, þar með talið iðnaðarhamps, getur því ekki fallið vel að verksviði Lyfjastofnunar. Þess vegna er lagt til með þessu frumvarpi að verkefni tengd iðnaðarhampi verði færð til Matvælastofnunar þar sem iðnaðarhampur er ekki ávana- eða fíkniefni heldur nytjaplanta. Enn fremur er lagt til að færa stjórnsýslu og verkefni í tengslum við leyfi og eftirlit til innflutnings á fræjum tegundarinnar frá Lyfjastofnun til Matvælastofnunar.

Virðulegi forseti. Með því frumvarpi sem hér er mælt fyrir er lagt til að nýtt ákvæði bætist við 2. gr. laganna þess efnis að þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 2. gr. sé Matvælastofnun heimilt að leyfa innflutning á umræddum fræjum en skal leyfi þetta vera háð skilyrðum reglugerðar sem ráðherra landbúnaðarmála er ætlað að setja. Lagt er til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fái þetta hlutverk þar sem eftirlit og stjórnsýsla varðandi ræktun iðnaðarhamps fellur betur að verksviði hans. Í reglugerðinni skal ráðherra landbúnaðarmála kveða á um veitingu leyfis til innflutnings umræddra fræja og skulu m.a. koma fram nánari skilyrði og takmörkun á innflutningi, meðferð og vörslu þeirra fræja sem frumvarpið nær til. Reglugerðin skal jafnframt kveða á um aðkomu Matvælastofnunar að verkefnunum, m.a. varðandi plöntuheilbrigði, álitsumleitan til annarra stjórnvalda varðandi umsækjendur um leyfi og heimildir aðila til sölu yrkja.

Samkvæmt reglugerðinni mun Matvælastofnun hafa það hlutverk að hafa umsjón með innflutningi fræja vegna ræktunar iðnaðarhamps, þ.e. að tryggja að öll innflutt fræ séu vottuð af sameiginlegri EES-skrá.

Frumvarp þetta var samið af starfshópi sem samanstóð af fulltrúum frá heilbrigðisráðuneytinu, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, Lyfjastofnun og Matvælastofnun. Við samningu frumvarpsins var líka haft samráð við Umhverfisstofnun, dómsmálaráðuneytið og lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Frumvarpið var birt í samráðsgátt 4. febrúar. Sex umsagnir bárust og var tekið tillit til þeirra umsagna sem bentu á að útiloka ekki ræktun. Ekki er gert ráð fyrir því að frumvarpið hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og ekki er gert ráð fyrir breytingum á tekjuhlið.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og leyfi mér því að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.