151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:11]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Á sunnudaginn var kom gestur í Silfrið til Egils Helgasonar, Páll Þórðarson prófessor, búsettur í Ástralíu. Það var athyglisvert, ég verð nú að segja það, sérstaklega fyrir konu eins og mig sem hef kallað eftir því frá því í janúar árið 2020 að við ættum að loka landamærunum fyrir ónauðsynlegri umferð, fyrir mig sem sennilega er ein af fáum sem fatta það, virðist vera, að veiran dettur ekki úr skýjum ofan eða kemur með sólargeislum eða regnvatni. Hún kemur í gegnum landamærin. Páll Þórðarson prófessor sagði okkur frá því að fyrir skemmstu var haldin þar 700.000 manna landbúnaðarsýning. Hann sagði okkur frá því að þarna stæði fólk þétt saman í lyftu og annað slíkt og það voru engar grímur, ekki neitt. Það er frelsi í Ástralíu. Það er frelsi í Taívan, á Nýja-Sjálandi og fleiri stöðum. Jú, við getum sagt að við höfum náð ágætisárangri. Hér hafa einungis 29 dáið. Hér hafa einungis á sjöunda þúsund smitast af Covid. Hér erum við alltaf að koma og fara en myndum náttúrlega ekkert gera ef það væri ekki þjóðin sem stæði sterk með sóttvarnayfirvöldum. Pólitíkin tók enga ábyrgð til að byrja með, alls ekki neina. Allt var sett á sóttvarnayfirvöld. Í Ástralíu er það nákvæmlega þannig að þar er 14 daga sóttkvíarskylda, undantekningarlaust nánast, á sóttvarnahóteli. Það eru stjórnvöld sem setja slíkar reglur og því er það alveg með ólíkindum að hér skyldu vera sett sóttvarnalög sem gátu ekki einu sinni stutt við reglugerðina sem átti að veita sóttvarnalækni heimild til að vinna þá vinnu sem hann taldi nauðsynlega til að vernda líf okkar og heilsu.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður, sem ég met mikils, kom hér áðan mjög glöð og talar um hvað okkur gengi vel og segir að þetta sé að verða búið. (Forseti hringir.) Þá ætla ég að segja að það er svo langt frá því að þetta sé að verða búið (Forseti hringir.) enda sást það í morgun að hér voru að greinast þrjú smit utan sóttkvíar hvert á sínum landsendanum.