151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

fátækt á Íslandi.

[13:55]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég óttast að hæstv. fjármálaráðherra sé dálítið fastur í gamaldags og skaðlegri hugmyndafræði í þessum efnum, hugmyndafræði sem styður við hugmyndir um að fátækt fólk og þau sem reiða sig á stuðning hins opinbera séu letingjar eða afætur, (Fjmrh.: Hvaða vitleysa er þetta?) eigi félagslegar aðstæður sínar skilið og það þurfi flókin kerfi með ströngum skilyrðum til að passa að enginn sé að svíkja út nokkrar aukakrónur. Þetta hugarfar ráðherra birtist okkur meira að segja í faraldrinum þegar fjöldi atvinnulausra náði sögulegum hæðum þrátt fyrir að hin atvinnulausu hefðu ekkert sér til sakar unnið annað en að hlýða stjórnvöldum og hætta að vinna. Það hvarflaði ekki að ríkisstjórninni né ráðherra að auka stuðning við atvinnulausa. Það kom ekki til greina að hækka berstrípaðar atvinnuleysisbætur því að fjármálaráðherra þótti það vera bjögun, eins og hann komst að orði. Það þyrfti að halda atvinnuleysisbótum lágum svo fólk myndi vilja fara aftur á vinnumarkaðinn, vinnumarkað sem hafði samt engin störf að bjóða. Það var ekki fyrr en eftir linnulausa gagnrýni stjórnarandstöðunnar, verkalýðshreyfingarinnar og hagsmunasamtaka sem ríkisstjórnin gaf sig í lok síðasta árs, loksins, og hækkaði atvinnuleysisbætur allt of seint.

Forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra spurningar sem ég tel vera algjöra grundvallarspurningu í þessari umræðu og það er hvort fjármálaráðherra telji þörf á því eða yfir höfuð gerlegt að uppræta fátækt og tryggja velmegun fyrir alla. Er fátækt kannski í hans huga bara óhjákvæmilegur og eðlilegur hluti af samfélaginu?