151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

hjúskaparlög.

646. mál
[14:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil fyrst lýsa ánægju með að þetta frumvarp sé fram komið. Mér reiknast til að hæstv. ráðherra sé þriðji dómsmálaráðherrann í röð sem ég á orðastað við um þessi mál. Sú staðreynd að 18 undanþágur frá aldursskilyrðum hafi verið veittar á síðustu tveimur áratugum eða svo kom einmitt fyrst fram opinberlega í svari þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra við fyrirspurn þess sem hér stendur á 148. þingi. Af því að ég sá að ekki höfðu skilað sér margar umsagnir við frumvarpið í samráðsgáttinni get ég upplýst ráðherrann um þær gleðilegu fréttir að frumvarp sama efnis sem ég lagði fram og mælti fyrir fyrr á árinu hefur lokið umsagnarferli. Inn eru komnar einar sex eða sjö umsagnir frá ýmsum mannréttindasamtökum sem öll mæla eindregið með því að undanþáguheimildin sé numin úr lögum. Þetta er því löngu tímabært og brýnt mál.

Í greinargerð frumvarpsins er talað um að verið sé að bregðast við alþjóðlegum tilmælum. Þau tilmæli eru frá árinu 2005. Tilmæli Evrópuráðsins eru frá árinu 2005 sem er fyrir 16 árum. Mig langar því að spyrja ráðherrann: Hvernig stendur á því að það sé fyrst núna, árið 2021, sem ráðuneytið kemur fram með þetta mál? Í öðru lagi langar mig að spyrja, herra forseti: Hvaða verklag var viðhaft innan ráðuneytis við mat á undanþágubeiðnum? Í greinargerð kemur fram, eins og kom reyndar fram í svari þáverandi hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni, að miðað hefði verið við 16 ár sem hinn allra lægsta aldur sem veita mætti undanþágu vegna. En hvað annað var skoðað? Var gerð einhver rannsókn á því að ekki væri um nauðung að ræða? Var skoðað hver bakgrunnur hjónaefna væri eða bara yfir höfuð hvaða rannsóknarskyldu stjórnvöld uppfylltu varðandi þessar undanþágur?