151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

hjúskaparlög.

646. mál
[14:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svarið en vona einmitt að við getum heyrt frá henni svör við hinum hluta andsvars míns sem snýr að verklagi ráðuneytisins og hvernig ráðuneytið hafi fullvissað sig um að þessi undanþáguheimild hafi ekki verið misnotuð í einhverju af þessum 18 tilvikum þar sem undanþága var veitt. Ég átti samtal við hóp háskólanema úr Háskólanum í Reykjavík sem höfðu fengið afhenta frá ráðuneytinu töfluna sem birtist hér með frumvarpinu. En þau höfðu beðið um viðbótarupplýsingar og fengið afhentar þar sem kom fram aldur hins hjónaefnisins, aldur hins eldra hjónaefnis sem gekk í hjónabandið. Ég verð að segja, herra forseti, að þar brá mér nokkuð vegna þess að í tvígang voru 17 ára stúlkur að sækja um undanþáguheimild til að giftast 31 árs karlmönnum. Þarna voru 26 og 27 ára karlar að fá undanþágu til að giftast 17 ára stúlkum aftur og aftur. Þessi aldursmunur hlýtur að setja einhver viðvörunarljós í gang hjá sæmilega metnaðarfullu stjórnvaldi sem vill rannsaka mál vel og vandlega. Þess vegna ítreka ég það sem ég sagði áðan: Hvaða verklag var viðhaft innan ráðuneytis? Hvaða rannsókn var gerð á raunverulegum vilja þeirra einstaklinga sem sótt var um undanþágu vegna, einstaklinga sem njóta verndar barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem gerir rannsóknina þeim mun mikilvægari? Treystir ráðherra sér til að fullyrða að undanþágukerfið hafi ekki verið misnotað?