151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

almenn hegningarlög.

710. mál
[14:51]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum í því skyni að bregðast við breyttum samfélagslegum viðhorfum til þeirra brota sem það fjallar um, þ.e. barnaníðsbrota, hatursorðræðu og mismununar. Við undirbúning frumvarpsins hefur m.a. verið litið til réttarþróunar annars staðar á Norðurlöndunum en að auki alþjóðlegra skuldbindinga Íslands, þá sérstaklega alþjóðasamnings um afnám alls kynþáttamisréttis og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Með 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til tvenns konar breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að við 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga bætist nýr töluliður sem geri það skylt að taka til greina við ákvörðun hegningar hvort brot megi rekja til þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra sambærilegra þátta. Hluta þessara breytingartillagna má rekja til nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamisréttis sem m.a. hefur beint þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda að 70. gr. almennra hegningarlaga verði breytt þannig að það geti leitt til refsiþyngingar ef brot má rekja til kynþáttar brotaþola. Við þessum tilmælum er brugðist með 1. gr. frumvarpsins. Við undirbúning frumvarpsins var aftur á móti ekki talið rétt að takmarka slíka breytingu við kynþátt heldur álitið rétt að bæta við ákvæðið öllum þeim þáttum sem taldir eru upp í 233. gr. a laganna um hatursorðræðu enda væru hvatar brotamanns sem eiga rætur að rekja til fordóma eða hatursorðræðu almennt þess eðlis að til þeirra ætti að líta við ákvörðun refsingar. Þessi breytingartillaga tengist 5. gr. frumvarpsins er vikið verður að hér á eftir.

Með 1. gr. frumvarpsins er einnig lagt til að við 70. gr. almennra hegningarlaga bætist ný málsgrein sem mælir fyrir um að að jafnaði skuli taka það til greina til þyngingar refsingu ef brot var framið í nærveru barns yngra en 15 ára. Er þá litið til þeirra sálrænu og tilfinningalegu afleiðinga sem það getur haft fyrir svo unga einstaklinga að verða vitni að broti.

Með 2. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 1. mgr. 108. gr. en samkvæmt því ákvæði skal hver sem í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi neitar manni um vöru eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum. Lagt er til að ákvæðinu verði breytt þannig að það veiti öllum þeim sömu hópum sem taldir eru upp í 233. gr. a um hatursorðræðu vernd gegn mismunun við afhendingu á vöru eða þjónustu til jafns við aðra.

Með 3. gr. frumvarpsins eru lagðar til veigamiklar breytingar á barnaníðsákvæði 210. gr. a almennra hegningarlaga en ákvæðið fjallar m.a. um myndefni sem sýnir barn á kynferðislegan hátt. Í fyrsta lagi er lagt til að dreifingu verði bætt við upptalningu þeirra verknaðaraðferða sem taldar eru upp í 1. mgr. ákvæðisins. Þótt nú þegar sé refsivert að afla sér eða öðrum efnis sem fellur undir ákvæðið þykir rétt að taka fram berum orðum að dreifing þess sé jafnframt refsiverð. Þá er í öðru lagi að finna skilgreiningu á barnaníði samkvæmt ákvæðinu sem felur í sér misnotkun á barni. Horfið er frá því að telja upp mismunandi gerðir af efni í texta ákvæðisins. Einungis er vísað til myndefnis og gildir þá einu á hvaða formi það er. Að sama skapi er lagt til að orðið „klámfengið“ verði fellt á brott enda nái orðið „kynferðislegt“ yfir þá háttsemi auk þess sem sú hugtakanotkun í tengslum við brot gegn börnum þykir að mörgu leyti úrelt. Í þriðja lagi er lagt til að brot gegn ákvæðinu sem beinast gegn börnum varði að hámarki sex ára fangelsisrefsingu í stað tveggja ára nú. Við mat á grófleika verknaðar skuli sérstaklega líta til umfangs brots, hvort lífi barns hafi verið stofnað í hættu, hvort barn hafi verið beitt grófu ofbeldi, hvort barn hafi beðið líkams- eða heilsutjón eða hvort brot sé framið á kerfisbundinn eða skipulagðan hátt. Í fjórða lagi er lagt til að við 210. gr. a bætist nýtt ákvæði þar sem verði kveðið á um að 1. og 2. mgr. gildi ekki um persónuleg samskipti ungmenna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þannig gildi þær málsgreinar ekki um þann sem býr til, skoðar eða hefur í vörslum sínum efni sem sýnir 15, 16 eða 17 ára barn ef sá sem efnið er af hefur veitt samþykki sitt og báðir aðilar eru á svipuðum aldri og þroskastigi. Þá er jafnframt lagt til að 1. og 2. mgr. gildi ekki heldur um 15, 16 eða 17 ára barn sem miðlar efni af sjálfu sér. Í því felst nánar að barni á framangreindu aldursbili er refsilaust að búa til myndefni sem fellur undir 1. mgr. og senda það öðrum einstaklingi. Að sama skapi er móttakanda að uppfylltum sömu skilyrðum refsilaust að varsla og skoða slíkt efni með samþykki þess sem myndefnið er af enda séu þeir á svipuðum aldri og þroskastigi.

Hér er rétt að staldra stuttlega við enda um flókið viðfangsefni að ræða og ekki auðvelt að sameina og vernda þá hagsmuni sem máli skipta þannig að tryggt sé að aðrir verði ekki út undan. Verði þessi breytingartillaga samþykkt mun til að mynda verða tryggt að ef 50 ára einstaklingur sannfærir 16 ára barn um að senda sér myndir sem sýna barnið á kynferðislegan hátt er móttakandanum hvorki heimilt að skoða né geyma myndirnar. Hér er um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða. Aftur á móti getur einnig komið upp sú staða að 17 ára einstaklingur sendir 25 ára kærustu eða kærasta slíkar myndir og er móttakanda þá óheimilt að geyma eða skoða myndirnar án þess að baka sér refsiábyrgð ef komist er að þeirri niðurstöðu að þeir séu ekki á svipuðum aldri og þroskastigi. Í einhverjum tilvikum kynni það að þykja ósanngjörn niðurstaða. Þessi sjónarmið voru öll tekin til athugunar við undirbúning frumvarpsins. Varð niðurstaðan sú að mun mikilvægara væri að sporna við brotum af því tagi sem nefnt var í fyrra dæminu. Aftur á móti er rétt að vekja sérstaka athygli á þessu atriði og vonandi verður það tekið til gaumgæfilegrar athugunar hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Að lokum og í fimmta lagi er lögð til breyting á uppbyggingu 210. gr. a. þannig að 2. málsliður 1. mgr. gildandi laga verði að nýrri 4. mgr. Þar er fjallað um fullorðna einstaklinga sem sýndir eru á kynferðislegan hátt enda séu þeir í hlutverki barns eða ef líkt er eftir barni í slíku efni þó að það sé ekki raunverulegt. Rökrétt þykir að aðgreina brot sem beinlínis beinast gegn börnum annars vegar og hins vegar brot þar sem fullorðnir eru sýndir í hlutverki barna eða í efni sem ekki er raunverulegt. Fjallað er um það í aðskildum málsgreinum. Áfram er gert ráð fyrir að hámarksrefsing fyrir brot af þessu tagi verði tveggja ára fangelsisvist.

Með 4. gr. frumvarpsins er lagt til að við almenn hegningarlög bætist nýtt ákvæði 210. gr. c sem fjalli um innbyrðis ítrekunartengsl barnaníðsákvæðanna tveggja, þ.e. 210. gr. a og 210. gr. b laganna. Í því felst að gerist maður sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot gegn annaðhvort 210. gr. a eða 210. gr. b sekur um nýtt brot gegn öðru hvoru þeirra ákvæða hefur dómurinn fyrir fyrra brotið áhrif til aukinnar refsingar fyrir hið síðara. Þá má bæta við refsingu allt að helmingi hennar, þ.e. 50% miðað við hámarkið. Í ítrekunarheimildinni felst því refsihækkunarástæða.

Með 5. gr. frumvarpsins er að lokum lagt til að í stað orðsins „þjóðernis“ í hatursorðræðuákvæði 233. gr. a almennra hegningarlaga komi: Þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna. Breytingin er í samræmi við tilmæli nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamisréttis en nefndin hefur litið svo á að ákvæðið í núverandi mynd taki ekki til þess á ensku sem er nefnt, með leyfi forseta, „ethnic origin“ og sú ábending er réttmæt. Hugtakið „ethnic origin“, eða þjóðlegur uppruni eins og það er hér íslenskað, er að vísu ekki skilgreint í alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis. Þó er ljóst að það yrði víðtækara en hugtakið þjóðerni. Þannig geti þjóðlegur uppruni til að mynda vísað til hóps þar sem fólk deilir sameiginlegri menningararfleifð, uppruna eða tungumáli svo að dæmi séu tekin.

Þá er einnig lagt til að fólki með fötlun verði veitt sú vernd gegn hatursorðræðu sem 233. gr. a mælir fyrir um. Eins og ég nefndi áður var slík breyting ekki talin nauðsynleg forsenda fyrir fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en hún er aftur á móti mjög í anda hans. Þykir því rétt og tímabært að leggja til slíka breytingu. Einnig er lagt til að kyneinkennum verði bætt við upptalningu 233. gr. a almennra hegningarlaga og með því sé fólki með ódæmigerð kyneinkenni tryggð sama vernd og öðrum mikilvægum hópum. Í samræmi við skilgreiningu laga um kynrænt sjálfræði vísa kyneinkenni til líffræðilegra þátta sem tengjast kyni, svo sem kynlitninga, hormónastarfsemi, kynkirtla og kynfæra.

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir helstu atriði frumvarpsins í því skyni að bregðast við breyttum samfélagslegum viðhorfum, bæði til hatursorðræðu, ýmiss konar mismununar, barnaníðsbrota o.fl. Litið hefur verið til réttarþróunar annarra Norðurlanda og ýmissa alþjóðlegra skuldbindinga Íslands. Að öðru leyti vísast til greinargerðar frumvarpsins og athugasemda við einstök ákvæði. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.