151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

almenn hegningarlög.

710. mál
[15:13]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og ætla ekki að fara að kýta við hann um það hvenær frumvörp koma fram eða annað. En ég ítreka að ég hef stutt frumvarpið og studdi það þegar það var rætt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hvort fólkið ætti að vera með, enda var sú breyting sem hér er lögð til tilbúin frá refsiréttarnefnd. Það eru auðvitað ekki sömu verknaðaraðferðir og annað eins og ég fór yfir í ræðu minni, en ég vona að þetta geti hraðað vinnunni allri, enda var mjög jákvæð sú umræða sem skapaðist þegar þingmál hv. þingmanns kom fram.

Ýmsar aðrar breytingar eru lagðar til í þessu frumvarpi og m.a. þess vegna dróst það og kom örlítið seinna fram, þegar þessi tiltekna breyting lá fyrir. Ég vona að hv. allsherjar- og menntamálanefnd lánist að vinna þetta mál samhliða hinu. Ég hef að sjálfsögðu engin áhrif á það hversu langan tíma frumvörp taka í meðförum þingsins en ég vona að við berum gæfu til að klára þetta mál hratt og örugglega, eins og hv. þingmaður kom inn á.