151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

698. mál
[16:12]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tók eftir áhugaverðu orðalagi hjá hæstv. ráðherra í andsvarinu, að með einu af úrræðunum sem hann nefndi hafi einstaklingum verið gert mögulegt að taka út 80 milljarða til að bæta eignastöðu sína. Þetta er dálítið áhugavert vegna þess að fólk tekur þessa 80 milljarða út af eigin eign, af séreignarsparnaði sínum. Ég held að það sé hluti af vandanum sem við stöndum frammi fyrir varðandi þessa sífelldu ásókn í séreignarlífeyrissparnaðinn til að bæta önnur vandamál í samfélaginu, að þetta er þegar eign fólks. Að ríkið leyfi fólki að taka út lífeyrissparnað fyrr en ella, gegn því reyndar að fólk greiði skatta af því, ekki í öllum tilvikum en oft, er ekki ölmusan sem það að þessir 80 milljarðar hafi bætt eignastöðu fólks gefur til kynna.

En það sem mig langar að undirstrika hér er að eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu liggur ekki fyrir greining á því hvaða hópi þetta eigi að þjóna. Hvað ef um er að ræða hóp sem myndi gagnast það miklu betur að hækka grunnframfærslu atvinnuleysisbóta eða að lengja enn tekjutengda tímabilið á atvinnuleysisbótum? Við erum að tala um hóp sem telur nærri 20.000 einstaklinga og ríkið hvetur þennan hóp til að éta af því sem gæti kallast forðabúr framtíðarinnar til að komast í gegnum áfall dagsins í dag, frekar en að (Forseti hringir.) þunga ríkissjóðs sé beitt til að hjálpa fólkinu að komast í gegnum efnahagslægð dagsins í dag.