151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[16:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og rakið er í frumvarpinu sjálfu er m.a. horft til samspils við kerfi almannatrygginga og talið að þessi breytta framkvæmd gæti dregið verulega úr kröfum Tryggingastofnunar ríkisins til endurgreiðslna. En bara þannig að það sé alveg skýrt: Þetta er ekki meginefni þessa máls. Mér finnst menn vera að festa sig í tæknilegum útfærsluatriðum. Meginefni þessa máls eru tímamót, söguleg tímamót á íslenskum vinnumarkaði, sem er jöfnun lífeyrisréttinda á milli markaða. Ég ætla ekki að standa hér í löngu orðaskaki um þessar tæknilegu útfærslur. Þetta eru smáatriðin í málinu sem þola alveg gagnrýni og það hreyfir enginn mikið við mér með því að benda á að þetta megi skoða. Það bara í fínu lagi að skoða þetta og velta upp öllum hliðum.