151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[19:00]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hann var óvenjukátur, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, í kvöldfréttum RÚV í gær þegar hann var spurður hvort þetta gæti kannski verið síðasta frumvarpið sem hann mælir fyrir á sinni löngu tíð á þingi. Hann taldi svo mögulega geta verið. Það færi vel á því, því að þetta væri umbótamál, sagði hv. þingmaður. Ég ætla að taka heils hugar undir með honum um það. Þetta er eitt af mörgum skrefum sem við höfum stigið á síðustu árum til að auka gagnsæi um störf okkar sem hér erum. Það er gagnsæi sem skiptir svo miklu máli til þess að við sýnum hvernig við öxlum þá ábyrgð að vera í því hlutverki sem okkur er falið hér.

Það er hægt að rekja þennan þráð enn lengra en aftur til upphafs þessa kjörtímabils. Það var t.d. nokkuð stór varða á þeirri leið þegar svör bárust við fyrirspurn hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar, sem svo vel hittist á að situr í forsetastóli akkúrat núna, þar sem hann dró fram sundurliðun á þingfararkostnaði sem hafði verið endurgreiddur til þingmanna nokkur ár aftur í tímann. Sú praktíska tilraun sýndi okkur hvað það væri mikilvægt að leiða þær upplýsingar fram í dagsljósið.

Ég er ekki sammála því að þetta sé endapunktur, heldur bara eitt af mörgum skrefum, og ég sé eitt skref í viðbót sem við getum tekið hér og nú, sem ég hef reyndar lagt fram frumvarp um áður, ég gerði það fyrir tveimur árum, varðandi starfskostnað sem þingmenn geta annaðhvort fengið endurgreiddan eða sem fasta upphæð í hverjum mánuði. (Forseti hringir.) Mig langar því að spyrja hvort við ættum ekki að bindast höndum um að (Forseti hringir.) færa starfskostnaðinn úr því að hann geti verið ígildi launauppbótar og yfir í það að hann sé ætíð endurgreiddur gegn reikningi.