151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

endurskoðuð landsskipulagsstefna 2015--2026.

705. mál
[21:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna og framlagningu þessa máls. Þessi tillaga endurspeglar mjög vel hversu mikilvæg skipulagsmál eru, ekki bara varðandi það samfélag sem við búum í í dag heldur það samfélag sem við munum búa við eftir marga áratugi, og hve þungt þau vega til að berjast í þágu loftslagsmála.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í eitt atriði hér í 5. kafla tillögunnar, sem varðar mat á loftslagsáhrifum skipulagsáætlana og annarra áætlana stjórnvalda. Þarna er vísað til þess markmiðs ríkisstjórnarinnar að stærri áætlanir ríkisins verði metnar út frá loftslagsmarkmiðum, markmiðum sem ríkisstjórnin hefur til þessa ekki náð, t.d. varðandi samgönguáætlanirnar sem hafa verið lagðar fram hér á þingi, sem er verulega miður en horfir til betri vegar nú þegar hallar í lok kjörtímabils.

Mig langar að spyrja: Hvaða verkfæri er verið að láta í té hér til að tryggja að svo verði? Það er talað um í greinargerðinni að hér sé t.d. verið að vísa til samgönguáætlunar, byggðaáætlunar og landsáætlunar um skógrækt en í tillögunni sjálfri sé ég til að mynda ekki lagt til að breyta þeim lögum sem hér um ræðir. Hvernig á að tryggja framfylgd við þetta annars góða markmið?