151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

708. mál
[22:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, við erum á eftir mörgum nágrannalanda okkar varðandi úrgangsmálin og væntanlega töluvert í land með að við stöndum þeim framar hvað það varðar. En það eru þessi sóknarfæri þar sem við njótum ákveðinnar sérstöðu og getum náð hratt utan um tiltekna úrgangsflokka. Hlutir eins og fiskikör er eitthvað sem við getum örugglega skoðað. Varðandi plastvörur til neytenda þá vekur það upp fleiri hugmyndir, t.d. hvort þurfi að fara að þrepaskipta þessum gjöldum meira. Við sjáum t.d. að glerflaska er mjög einföld í endurvinnslu borið saman við plastflöskur þar sem geta verið þrjár gerðir af plasti eftir því hvar á flöskunni drepið er niður. Slík ílát ættu að bera þeim mun hærri úrvinnslugjöld. Ég held að það sé samt lykilatriði í síðara andsvari ráðherrans að hann komi inn á stöðu sjávarútvegsins vegna veiðarfæranna, að sjávarútvegurinn með samningi við Úrvinnslusjóð sé á köflum að láta aðra borga það fyrir sig að koma úrgangi í endurvinnslu. Það getur varla verið í samræmi við það sem við viljum að tíðkist í þessum bransa og sýnir að kannski er ekki nóg að koma vörunni í umsýslu Úrvinnslusjóðs, eins og ráðherrann orðar það, heldur þarf að sjá til þess að sú umsýsla verði í takt við mengunarbótareglu, að sá sem mengar borgi fyrir úrvinnslu þess úrgangs. Það er sannarlega ekki staðan með sjávarútveginn meðan þessi samningur við Úrvinnslusjóð er í gildi.