151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

loftslagsmál.

711. mál
[23:08]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum kannski að tala um það sama, mig grunar að hv. þingmaður hafi aðeins misskilið mig áðan þegar ég var að tala um 2030, þar sem ég átti við hvort endilega ætti að lögfesta einhverja áfanga á leiðinni að kolefnishlutleysi, þ.e. að við værum búin að kolefnishlutleysa eitthvað ákveðið mikið þá. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að æskilegt sé að setja í lögin markmiðin 2030 með tilliti til Parísarsamkomulagsins líkt og lögin í dag kveða í raun á um, nema hvað þau kveða á um það sem kemur í hlut Íslands í gegnum samstarf við Evrópusambandið og Noreg. Meginatriðið er náttúrlega það grundvallaratriði að binda kolefnishlutleysi, hvenær því verði náð fyrir íslenskt samfélag, í lög vegna þess að það bindur líka hendur komandi ríkisstjórna. Auðvitað er hægt að breyta lögum en að mínu mati er það algerlega megintilgangurinn með þessari lagasetningu að ná þessu grundvallaratriði í gegn til þess að varða veginn. Síðan eru það útfærslurnar á því hvernig við náum þessu nákvæmlega, hvaða áföngum við náum 2025, 2030, 2035, og þar erum við alltaf að fá betri og betri upplýsingar. Við erum að þjálfa mannskap í að vinna í þessu fyrir okkur. Við erum, vil ég meina, ljósár frá því hvar við vorum fyrir þremur árum, einfaldlega vegna þess að við höfum bætt í mannafla í stofnunum og í ráðuneytum. Við höfum nýtt okkur betur aðkeypta aðstoð frá háskólanum. Ég held því að þetta sé verkefni sem verði einfaldlega mjög spennandi að vinna að á komandi misserum.