151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[16:47]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil satt að segja hvorki upp né niður í hv. þingmanni núna. Ég vitnaði hér í umsögn skattstjóra þar sem hann fullyrðir að sú breyting sem verið er að gera muni styrkja baráttuna gegn skattsvikum. Ég skildi hv. þingmann þannig að hann væri að tala um það hér áðan að svo yrði ekki, heldur þvert á móti. Skattstjóri segir líka að þetta skapi tækifæri til að nýta heildstæðar greiningar til áhættumats og forgangsröðunar við bæði skattrannsóknir og skatteftirlit á grundvelli yfirsýnar yfir ferlið allt frá framtals- eða skýrsluskilum til innheimtu. Hann er sem sagt að fullyrða það að hér sé verið að stíga skref í þveröfuga átt við það sem hv. þingmaður heldur hér fram. Það er verið að styrkja skattrannsóknir. Það er verið að styrkja baráttuna gegn skattsvikum og undir þetta taka fyrrverandi yfirmenn þessara embætta og í rauninni líka sá aðili sem ber ábyrgð á rannsókn og ákæru í efnahagsbrotum, héraðssaksóknari, og ríkissaksóknari einnig. Þannig að fullyrðingar um að með þessu frumvarpi sé verið að veikja skatteftirlit, skattrannsóknir eða baráttu gegn skattsvikum standast ekki, hv. þingmaður, nema hv. þingmaður hafni því sem kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra. Spurningin er: Er það svo, hv. þingmaður?