151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[18:23]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann kom mér svo sem ekkert á óvart þar. Kannski var pínulítið ósanngjarnt að ganga hér í andsvar út frá orðum sem féllu í samtali ráðherra við þingmann í gærkvöldi, seint í gærkvöldi ef ég man rétt.

En fyrst ég fæ tækifæri á öðru samtali um þetta mál þá langar mig aðeins að heyra skoðun hv. þingmanns, af því að hann fór svo ágætlega yfir það áðan hvaða augum menn líta gullið, þennan sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga, eftir því hvaðan menn horfa. Við getum talið upp þessi mál, við erum með hálendisþjóðgarðinn, flugvöllinn í Reykjavík, tilraun til lögbundinnar sameiningar sveitarfélaga og vegaframkvæmdir ýmiss konar. Ég held meira að segja að í einhverjum tilfellum séu hér þingmenn sem gjarnan vildu grípa inn í skipulagsmál Reykjavíkur til að stoppa borgarlínu, ef ég hef skilið pirring ýmissa þingmanna rétt, og ég er ekki að horfa hér með hnakkanum á hv. þingmann sem þar situr, þeir finnast víðar.

Þetta var kannski útúrdúr en því er ekki að neita að mjög oft — og aftur er ég kannski að vísa í ágæt andsvör hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur hér frá í gær, sem er hokin af reynslu á sveitarstjórnarstiginu líka — þvælast kerfin fyrir og þau þvælast stundum fyrir þegar kemur að þjóðþrifaverkum sem þarf að koma áfram í þágu lands og þjóðar. Hefur hv. þingmaður einhverjar hugmyndir um hvernig hægt væri — ég segi nú kannski ekki eitt skipti fyrir öll, en í stóru myndinni — að koma málum fyrir þannig að um þau ríkti sæmileg sátt og við værum ekki að ræða þau svona ad hoc í hvert einasta skipti og þá út frá pólitískum augum hvers og eins, hvaða fyrirkomulag væri hér best ríkjandi, svo maður noti nú tvær mínútur í slíkar hugleiðingar. Mér þætti vænt um að heyra þær.