151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[18:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka traustið til að koma með lausnir á þessu á tveimur mínútum. En ég fagna tækifærinu til þessarar umræðu. Ég held að ég og hv. þingmaður séum um býsna margt sammála í þessum efnum miðað við það sem ég hef heyrt af málflutningi hv. þingmanns um þessi mál.

Ég held að það sé ekki hægt að koma þessu í eitthvert horf í eitt skipti fyrir öll, nei. Ég held að það sé ekki þannig. Ég held að á meðan eru fleiri en eitt stjórnsýslustig í landinu, sem er vel, verði það þannig. Annað stjórnsýslustigið getur sett lög sem hitt verður að fara eftir. En hitt getur það ekki. Sveitarfélögin geta ekki samþykkt eitthvað sem Alþingi þarf að sitja og standa eftir og þá munu alltaf koma upp einhver tilvik þar sem Alþingi, löggjafinn, er að horfa á einhverja stærri heildarmynd og það getur á einhvern hátt rekist á hugmyndir í minni einingum.

Ég held að sjálfsákvörðunarréttinn beri að virða í hvívetna. Ég held að það sé alltaf best af því að fólk getur, í ákveðnum tilvikum, eins og Ísland gerir sem ríki, gerst aðili að alþjóðlegum samningum og gefið þar eftir að einhverju leyti réttinn til að taka ákvarðanir en gert það með opin augun. Þannig er alltaf best að maður takmarki eitthvað af sínum réttindum. Ég held að öflugri og stærri sveitarfélög séu stórt skref í átt að því að laga jafnvægið. Ég held að auknir fjármunir frá ríki til sveitarfélaga, eða úr ríkissjóði, þ.e. að sveitarfélögin fái aukinn hluta af tekjum til að standa undir sínum mikilvægu verkefnum, séu líka hluti af því.