151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[18:28]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Það mál sem við tölum hér um, frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum (uppbygging innviða og íbúðarhúsnæðis), hefur fengið fína umfjöllun hjá umhverfis- og samgöngunefnd. Nær allir nefndarmenn umhverfis- og samgöngunefndar eru með á meirihlutaáliti. Framsögumaður, hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, fór vel yfir nefndarálitið áðan, svo vel að ég sé enga ástæðu til að fara yfir það.

Ég er á álitinu en með fyrirvara. Ástæða fyrirvarans felst í kaflanum Raflínunefnd og raflínuskipulag þar sem eru frávik frá meginreglum skipulagslaga um að sveitarfélög fari með skipulagsvaldið. Við fórum, eins og fram hefur komið, vel yfir það og reyndum eins og hægt var að girða fyrir að það væri fordæmisgefandi. Hér væri um að ræða mjög sérstaka stöðu, vanda sem kom í ljós og við þyrftum að bregðast við vegna þess að hlutverk okkar er að tryggja öryggi fólks hvar sem það býr á landinu, m.a. með tilliti til rafmagnsöryggis. Þetta var leiðin sem menn töldu einfaldasta til að fara að því marki og hún felur í sér þetta inngrip. Frá mínum bæjardyrum séð er það næstum því óásættanlegt inngrip en það er ásættanlegt ef ég er 100% örugg um að það hafi ekki fordæmisgildi og menn líti ekki þannig á að einhvern veginn sé einn fingur kominn inn um gættina sem heldur ekki eins vel í framhaldinu. Ýmislegt hefur gerst frá því að nefndarálitið var skrifað sem dregur úr trausti mínu á því að svo sé og kannski er nærtækt að nefna frumvarp sem hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lagði fram varðandi mögulegt inngrip í ákvarðanir sveitarfélaga um staðsetningu flugvalla svo að dæmi sé tekið.

Í meðförum þingsins er frumvarp um lögbundna sameiningu sveitarfélaga og frumvarp um hálendisþjóðgarð. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé fór vel yfir það að menn hafa mismunandi skoðanir á þessu eftir því hvaða pólitísku sýn þeir hafa á hvert mál fyrir sig og það einfaldar ekki myndina. En rauði þráðurinn í öllum þessum málum er áhugi þingsins, vilji og eftir atvikum þörf á grípa inn í skipulagsvaldið.

Hæstv. umhverfisráðherra, en málið heyrir undir hann, flytur þetta frumvarp. Hann á annað mál sem snertir sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og það er frumvarp um hálendisþjóðgarð. Þar er á brattann að sækja fyrir hæstv. ráðherra og fylgjendur, a.m.k. frumvarpsins og mögulega fylgjendur hálendisþjóðgarðs í hvaða mynd sem er. Það verður trauðla gert nema með einhverju inngripi eða a.m.k. samstarfi við sveitarfélög. Það er svo fjarri því að ég ætli hæstv. umhverfisráðherra að vera að setja fingurinn inn í gættina til að slaka aðeins á hjörunum. En eins og ég nefndi áðan eru síðan önnur mál í gangi frá öðrum ráðherrum, sérstaklega hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Málið verður því svolítið stærra en því var mögulega ætlað að verða, eða þá að það er kannski nákvæmlega jafn stórt og einhverjir sáu fyrir sér að það yrði.

Ég ætla að leyfa mér að vísa í samtalið sem hæstv. umhverfisráðherra átti við hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur í gær um endurskoðaða landsskipulagsstefnu þar sem hæstv. ráðherra nefndi að fyrra bragði akkúrat þetta mál. Í samhengi hlutanna er svolítið erfitt að sjá fyrir sér, ef hann telur ekki nákvæmlega að þarna geti verið eitthvert fordæmi, að menn séu að prófa, menn séu að athuga hvernig þetta gangi til.

Þess vegna, herra forseti, ætla ég að óska eftir því að málið verði kallað inn til nefndar á milli 2. og 3. umr. Ég óska eftir því og mun gera það við formann nefndar að hæstv. ráðherra komi til fundar við okkur og fari aðeins yfir þessi mál vegna þess að ég get ekki stutt þetta mál og verið á meirihlutaáliti ef ég er í góðri trú, eins og ég held að aðrir í nefndinni séu, um að við séum að segja eitt en ráðherra sjái út úr því annað. Nú er ég ekki að gera því skóna að svo sé en ég tel slíkan vafa leika á málinu að ég óska eftir þessu. Ég vona að það gangi eftir sem fyrst, helst í fyrramálið, og að við getum klárað málið. Ég þarf fyrir mitt leyti þessa fullvissu.