151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[18:34]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kom í ræðu sinni inn á umræðu í nefndinni. Mig langar að spyrja: Var þá líka tekin umræða um svæðisbundna kerfið í tengslum við meginflutningskerfi raforku, sem er byggðalínuhringurinn, sem er Sauðárkrókslína, Dalvíkurlína, Laxárlína, Húsavíkurlína, Kópaskerslína, sem væri þá hluti af þessu máli? Ég er ekki viss hvort allir hv. þingmenn átti sig á alvarleika veðursins sem gekk yfir í desember 2019. Þetta mál verður til í gegnum átakshóp sem kom með einar 500 tillögur, ef ég man rétt, í febrúar/mars 2020 og þetta er ein tillaga þess átakshóps, að auðvelda stjórnsýslu í lagningu á því stóra kerfi sem flutningskerfi raforku er. Þannig að það er kannski spurningin.

Það vill svo til þegar þessi mál eru skoðuð í samhengi í Evrópu að yfirgnæfandi fjöldi Evrópuríkja er með löggjöf í þessa veru, þar sem er verið að tryggja þjóðaröryggishagsmuni sem snúa að flutningskerfi raforku. Við sem upplifðum þetta veður í desember 2019 beint, og raunverulega hvað þetta hefði getað farið miklu verr, þarna gengu ákveðnar línur mjög tæpt, tökum þetta alvarlega og ég held að þetta sé fínt skref til að tryggja það öryggi sem allir leita eftir í sínu lífi. En þetta er það sem ég vildi kannski spyrja um til að byrja með.