151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[18:38]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem var óvenjulegt í desember 2019, í því óveðri sem gekk yfir norðurhluta landsins, var nákvæmlega það að það var flutningskerfi raforku, meginflutningskerfi þjóðarinnar, sem gaf sig, ákveðnar línur tengdar því. Það var ekki dreifikerfið, sem hefur gerst í gegnum áratugina, heldur stóra kerfið sem hafði ekki undan þessu veðurálagi, þannig að þetta er nýtt. Fyrir ári óskaði ég, ásamt þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, eftir skýrslu um innviði og þjóðaröryggi. Sú skýrsla kom út í janúar og þar er tekið á þessu og bent á — og hluti af því er flutningskerfi raforku — að í öllum nágrannalöndunum, sem við miðum okkur við, þá er þetta tekið sérstaklega fyrir sem hluti af þjóðaröryggismálum. Það á ekki bara við raforkukerfið heldur alla helstu innviði sem viðkomandi þjóðfélög eiga allt undir. Það geta verið netöryggismál, infrastrúktúr, brýr, virkjanir og ýmislegt eins og er í Svíþjóð, Danir eru með sitt og Norðmenn líka. Við erum í raun með þessu, með nákvæmlega sama hætti, að færa okkur inn í þetta. Hvað þá með Keflavíkurflugvöll? Hann er raunverulega undir skipulagsvaldi ríkisins, samstarfshópur með tveimur sveitarfélögum á því svæði vinnur það, þannig að það er bara litið á það út frá þjóðaröryggishagsmunum. Þetta er nákvæmlega eins mál, og við erum með fleiri mál sem snúa að stóru hagsmununum í heildarsamhengi hluta en einstök sveitarfélög geta ekki farið gegn þeim. Þess vegna vil ég líta til nágrannaþjóðanna sem hafa verið með og byggt upp löggjöf hjá sér um áratugaskeið, liðin eru 30, 40, 50, 60 ár síðan þau settu slíka löggjöf hjá sér.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er þá hv. þingmaður og hennar flokkur á móti því að við tryggjum þessa helstu þjóðaröryggishagsmuni í löggjöf á Íslandi, sem snúa að grundvallaratriðum í innviðum landsins?