151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[18:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það mál sem við ræðum hér er sett fram til að bregðast við ástandi sem bregðast þarf við. Óveðrið sem gekk yfir norðurhluta landsins í desember 2019 sýndi fram á veikleika í dreifikerfi raforku, veikleika sem við vissum alveg af, veikleika sem verið hefur mjög erfitt að bregðast við og laga á síðustu árum og áratugum. Ég held við þekkjum öll einhver dæmi úr okkar sveitum þar sem vandræði af þessum toga eru til staðar. Það er t.d. hægt að benda á Suðvesturlínu sem hefur verið að velkjast í kerfinu í rúman áratug og aldrei næst að mynda sátt á milli framkvæmdaraðila og íbúanna meðfram línunni og íbúanna sem taka eiga við raforkunni. Þetta er virkilega bagaleg staða, þetta er nokkuð sem bregðast þarf við.

En er þetta endilega leiðin til þess? Ég ætla ekki að halda því fram að þetta sé á sama skala í groddaskap og frumvarp sem liggur hér fyrir þinginu um framkvæmdarleyfi fyrir Suðvesturlínu frá nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þar sem beinlínis er lagt til að binda í lög eina framkvæmd til að komast fram hjá sjálfsögðu valdi íbúa sveitarfélags yfir skipulagi síns svæðis. Það frumvarp sem við ræðum hér er hins vegar, eins og fram hefur komið í máli allra ræðumanna, inngrip í sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, inngrip í þann rétt fólks að hafa áhrif á nærsamfélag sitt. Það er upplýsandi að lesa umsagnir við þetta mál. Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga ber t.d. með sér að það sé með nokkrum semingi sem það sætti sig við þessa leið. Það gerir það með þeim fyrirvara að hér á Alþingi verði sá skilningur staðfestur að ekki séu áform um frekari skref í þá átt að færa skipulagshlutverkið frá sveitarfélögum. Sambandið áttar sig á nauðsyn inngrips í þessa tilteknu tegund framkvæmda á þessum tímapunkti en að þar við skuli sitja.

Reyndar bóka tveir stjórnarmenn sambandsins gegn þessari sameiginlegu niðurstöðu, telja að hér sé óásættanlegt fordæmi sem vegi að skipulags- og sjálfsákvörðunarvaldi sveitarfélaga. Það vill svo til að þar er um að ræða fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, en hann skilar einmitt afgerandi umsögn gegn frumvarpinu, leggst alfarið gegn tillögu frumvarpsins um raflínunefnd og raflínuskipulag þvert á sveitarfélagamörk, alfarið, og segir að um sé að ræða óásættanlegt fordæmi þar sem vegið sé að skipulags- og sjálfsákvörðunarvaldi sveitarfélaga. Þetta segir fulltrúi Reykjavíkurborgar ekkert út í loftið vegna þess að hann veit hvað hangir á spýtunni ef fordæmi skapast.

Það þarf ekki annað en að kíkja á þingmálaskrár síðustu ára og áratuga. Við eigum t.d. nokkurra ára gamalt frumvarp nokkurra þingmanna um að taka yfir skipulagsvald í Kvosinni þegar einhverjum fulltrúum í forsætisnefnd þótti Reykjavíkurborg hafa staðsett listaverk sem þeim var ekki þóknanlegt of nálægt þinghúsinu. Þá vildu þingmenn bara bregðast við með því að einangra þingið í bómull þar sem ríkið hefði skipulagsvald, 20 m frá Ráðhúsi Reykjavíkurborgar sem hefði misst skipulagsvaldið yfir þessu svæði. En frá Ráðhúsinu er svo sem ekki mikið lengri vegur yfir á flugvöllinn sem virðist sömuleiðis vera bitbein þeirra sem vilja ganga að skipulagsvaldi sveitarfélaga í þágu óljósra hagsmuna sem eru gjarnan klæddir í búning almannahagsmuna. Eðlilega reisir Reykjavíkurborg flögg hér og segir að þetta sé ekki í boði. Reykjavíkurborg er ekki bara á móti, hún er líka að benda á að aðrar leiðir séu færar.

Ein þeirra varðar einmitt mál sem er nýkomið til þingsins, sem eru lög um mat á umhverfisáhrifum. Frumvarp um heildarendurskoðun þeirra gekk til umhverfis- og samgöngunefndar í gær þar sem m.a. er kveðið á um liprari og auðveldari stjórnsýslu í stærri framkvæmdum. Verið er að vinna í öllum þessum vanköntum á ferlinu sem hafa valdið því að stærri framkvæmdir, eins og Suðvesturlína, lenda ítrekað upp við vegg þannig að lagaramminn, hinn almenni lagarammi sem á að geta tekið utan um svona, er að batna og gæti vel dugað til að ná utan um þessi mál. Þar að auki þyrfti ríkið kannski að eiga orð við framkvæmdastofnanir sínar. Það eru ekki mjög margir aðilar sem lenda í þessum vandræðum gagnvart kerfinu sem eru í framkvæmdum sem teygja sig þvert á sveitarfélagamörk. Það er Landsnet sem er í stóru raforkukerfunum og það er Vegagerðin sem er í stóru samgönguframkvæmdunum og báðar þessar stofnanir virðast allt of oft lenda í endalausum deilum við sveitarfélög, jafnvel bara um hluta af þeim framkvæmdum sem til skoðunar eru. Í Suðvesturlínu held ég að eini ásteitingarsteinninn núorðið sé einhver pínustubbur hjá sveitarfélaginu Vogum þar sem sveitarfélagið er alveg hart á því að fá línuna í jörð en Landsnet er grjóthart á því að það verði ekki. Hvort þurfum við að breyta lögum eða láta fólk bara finna einhverja leið til að sættast? Á ekki Landsnet að geta beygt sig undir vilja sveitarfélaga þegar svona háttar til?

Ég hef lagt fram breytingartillögu við frumvarpið sem felur í sér að felldur verði brott sá hluti þess sem lýtur að raflínunefnd og raflínuskipulagi vegna þess að frumvarpið felur í sér veigamiklar breytingar sem geta skapað varasamt fordæmi þar sem skipulagsvaldið er fært frá sveitarfélögunum og getur dregið úr möguleikum almennings til að hafa áhrif á stefnumótun í skipulagsmálum. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr vandanum sem við stöndum frammi fyrir, heldur bara að leggja til að skoðuð verði leið sem byggir á traustari lagaramma en hér er lagt upp með. Ég lagði þessa breytingartillögu fram fyrir viku eða svo, en í millitíðinni heyrði ég orðaskipti í þingsal sem fengu mig til að sannfærast enn frekar um að þessi breytingartillaga sé nauðsynleg. Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson kom inn á þetta í fyrri ræðu og ég er ánægður með að umhverfis- og samgöngunefnd muni taka málið inn á milli umræðna til að heyra í hæstv. umhverfisráðherra varðandi afstöðu hans til þessa máls. Þeir varnaglar sem slegnir eru í nefndaráliti, þ.e. að hér sé ekki um fordæmisgefandi ákvörðun að ræða, virðast ekki hafa náð eyrum ráðherrans miðað við orð hans hér í gær þegar hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir lýsti sinni sýn í umræðum um 705. mál, landsskipulagsstefnu, um að hún vildi sjá ákveðna grunninnviði aðra en raflínur festa í sameiginlega sýn. Við eigum einmitt mörg dæmi um stærri framkvæmdir sem erfitt er að koma áfram vegna þess að flækjustigið er til staðar þegar margir aðilar koma að málum. Hv. þingmaður nefndi í andsvari sínu grunninnviði á borð við rafmagnslínur, veitur, flugvelli og hafnarmannvirki, en velti því upp hvort ekki væri sniðugt að festa þetta niður í landsskipulagsstefnu. Við því brást ráðherrann með því að segjast vera tilbúinn til að taka umræðu um þessa grunninnviði en vildi benda sérstaklega á frumvarp sitt, frumvarpið sem við ræðum hér í dag, þar sem verið væri að setja málefni raflína í nýtt form.

Þá sagði ráðherra, með leyfi forseta: Ég held að það sé kannski ekkert vitlaust, verði það frumvarp að lögum, að sjá hvernig það gerir sig að hafa fyrirkomulagið með þessu móti. Hann segir reyndar að honum þyki ekki skynsamlegt að fara of hratt í þessar breytingar. En í þessu andsvari sínu segir ráðherra allt nema orðið fordæmi.

Allt sem ráðherrann sagði í gær bendir til þess að hann líti á þá breytingu sem verið er að gera hér sem eitthvað sem sé bara ekkert vitlaust að sjá hvernig virki svo mögulega sé hægt að beita því annars staðar líka. Þetta þurfum við að skoða í umhverfis- og samgöngunefnd og vonandi hefur ráðherra farið fram úr sér þó að orðin virki reyndar býsna skýr eins og þau féllu í gær. Ég hef hér gert grein fyrir þessari breytingartillögu minni sem liggur fyrir við 2. umr. málsins.