151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[18:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrri spurningin sneri að því hvað standi eftir í frumvarpinu ef breytingartillaga mín nær fram að ganga. Þá liggur í hlutarins eðli að það sem snýr að raflínunefnd og raflínuskipulagi dettur úr frumvarpinu og eftir standa atriði sem snúa að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, sem er annar þáttur frumvarpsins og er vissulega ekki jafn veigamikill þáttur og hinn. En þetta er tillaga sem ég legg fram einfaldlega vegna þess að málið kemur ekki nógu klárt til okkar. Samband íslenskra sveitarfélaga samþykkir það með semingi út á forsendur sem mér sýnast hafa brostið í gærkvöldi. Ég veit að hv. þingmaður, sem margfaldur flutningsmaður frumvarpa til að rífa skipulagsvaldið af sveitarfélögum í tilteknum málum, er kannski ekki jafn heitur í því og sá sem hér stendur að skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögunum. En hann hlýtur að skilja þá afstöðu.