151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[19:10]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum sem varðar uppbyggingu innviða og fleiri þætti sem hv. framsögumaður umhverfis- og samgöngunefndar, þ.e. nefndarálitsins, gerði ágætlega grein fyrir áðan. Kastljósinu hefur einkum verið beint að einum þætti þessa frumvarps, þ.e. innviðauppbyggingu og raflínuskipan. Tilurð frumvarpsins má rekja til mikils óveðurs í desember 2019, eins og fram hefur komið hjá hv. þingmönnum. Það óveður olli miklu tjóni og setti samfélagið allt úr skorðum. Samgöngur lögðust af og atvinnulífið lamaðist á þeim svæðum sem urðu verst úti á norðanverðum og vestanverðum hluta landsins. Það urðu miklar truflanir í flutnings- og dreifikerfi rafmagns sem síðan hafði að sjálfsögðu áhrif á fjarskipti og sambandsleysi við umheiminn varð veruleiki um hríð á stórum svæðum. Þetta var hörð lexía sem þeir sem eru eldri en tvævetur, skulum við segja, muna kannski enn, en við höfum ekki upplifað annað eins lengi.

Í kjölfar þessa var skipaður starfshópur eða átakshópur sex ráðuneyta sem fékk það verkefni að meta og hugsanlega finna færar leiðir til að efla innviði í flutnings- og dreifikerfi raforku og fjarskiptum og hvort einfalda mætti og flýta málsmeðferð við breytingar á áætlunum sveitarfélaga varðandi sitt aðalskipulag og sömuleiðis hvernig mætti vinna með greiðum hætti að útgáfu framkvæmdaleyfa þegar framkvæmd tekur til nokkurra sveitarfélaga eða fleiri sveitarfélaga en eins. Það kom fram við athugun starfshópsins að síðustu ár hafa orðið umtalsverðar tafir í undirbúningsferli framkvæmda við flutningskerfi raforku og þá sérstaklega við meginflutningskerfið sem er á ábyrgð Landsnets.

Herra forseti. Sveitarfélög, lítil og meðalstór, mæðast í mörgu og stundum tefja skipulagsmálin fyrir framgangi einstakra þátta í skipulagsferlum. Það kann að vera að óeining sé um einstaka framkvæmd og þá valkosti og þær leiðir sem til greina koma innan sveitarstjórna og meðal íbúanna. Auk þess sýnir reynslan að hætta á töfum eykst auðvitað í réttu hlutfalli við fjölda þeirra sveitarfélaga sem koma að málum. Þetta er að glíma. Raflínur í meginflutningskerfi raforku liggja nefnilega um fleiri en eitt sveitarfélag og þær geta kallað á breytingar á aðalskipulagi og þar er kannski um nokkur sveitarfélög að ræða og breyta þarf aðalskipulagi í hverju þeirra fyrir sig og líka gefa út framkvæmdaleyfi í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Þetta var viðfangsefnið og meginefni frumvarpsins, sem byggir efnislega á tillögum starfshóps ráðuneytanna sem fjallar um að opnað verði á möguleika og heimildir til að vinna sérstakt innviðaskipulag sem taki til svæðis þvert á sveitarfélagsmörk í þeim tilgangi að auðvelda og flýta fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku. Þetta eru álitamálin. Gert er ráð fyrir því að gerð slíks skipulags verði í höndum nefndar sem í eigi sæti fulltrúar ríkis og fulltrúar sveitarfélaga. Heimilt verður sem sé að skipa stjórnsýslunefnd. Það er heimilt. Þessi nefnd hefur verið kölluð raflínunefnd og þar eiga fulltrúar í viðkomandi sveitarfélögum sæti, þeim sveitarfélögum sem viðkomandi skipulagsákvörðun á að ná til. Í nefndinni situr líka fulltrúi Skipulagsstofnunar til að tryggja fagþekkingu og tengsl við mat á umhverfisáhrifum. Það er rétt að árétta að um er að ræða valkvæða málsmeðferð sem fer einungis í framkvæmd ef fram kemur ósk um það frá framkvæmdaraðila. Beiðni framkvæmdaraðila um skipun raflínunefndar skal sett fram snemma og strax á undirbúningsstigi framkvæmdar og áður en ferli samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fer í gang. Þessari raflínunefnd, sem svo hefur verið nefnd, er ætlað að veita framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda í flutningskerfinu samkvæmt þeirri áætlun sem ríkir um kerfið og hafa eftirlit með þeim framkvæmdum og framkvæmd raflínuskipulagsins. Ef nefndin kemst ekki að sameiginlegri niðurstöðu er lagt til að málinu skuli innan ákveðins tíma vísað til umhverfis- og auðlindaráðherra sem taki ákvörðun um hvað skuli taka til bragðs, hvaða skilyrðum framkvæmdin skuli háð í skilmálum skipulagsins og hvaða valkostir skuli verða uppi.

Herra forseti. Í umhverfis- og samgöngunefnd fékk frumvarpið ítarlega umfjöllun, leyfi ég mér að segja. Það bárust 16 umsagnir frá sveitarfélögum og stofnunum. Margar þeirra voru alljákvæðar og töldu áformin vera til framfara á margan hátt. Það var þó ekki einhlítt eins og komið hefur fram í ræðum hv. þingmanna. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga áréttar þó að tillaga um raflínunefnd sem vinna muni sérstakt vinnuskipulag, sé verulegt frávik frá meginreglu skipulagslaga. Sambandið leggur mikla áherslu á að við umfjöllun Alþingis endurspeglist sá skilningur með órækum hætti að ekki séu áform um frekari skref í þá átt að færa skipulagshlutverkið frá sveitarfélögunum, enda er skipulagshlutverkið einn af hornsteinum sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga, nánast hin helgu vé.

Það hefur einnig komið fram að andstaða var við þetta í umsögn Reykjavíkurborgar og innan sambandsins þar sem fulltrúar Reykjavíkurborgar skiluðu sérstakri bókun. Reykjavíkurborg telur þessar breytingar reistar á efnislega rýrum rökum og þær séu ekki aðgengilegar og þarna sé með sama hætti vegið að sjálfsákvörðunarvaldi sveitarfélaga og þetta skapi, eins og fram hefur komið, varasamt fordæmi. Þetta var afstaða Reykjavíkurborgar og sambandsins en í meðförum nefndarinnar tókst að koma á breytingum í samráði við framsögumann sem leiddi málið af lipurð, breytingum sem nægðu til að ásættanleg niðurstaða og breið sátt náðist, leyfi ég mér að segja, en áréttað er kirfilega í nefndaráliti því sem liggur fyrir að ákvæði frumvarpsins séu skýrt afmörkuð að efni, taki einungis til lagningar raflína í flutningskerfi raforku. Ákvæðið nái ekki til annarra innviða eins og samgönguframkvæmda og skapi því alls ekki fordæmi varðandi frekari takmörkun á skipulagsvaldi sveitarfélaganna. Með þessu trúum við því að girt sé fyrir frekari freistingar ríkisvaldsins til að feta sig inn á hina helgu reiti sveitarfélaganna.

Í gærkvöldi urðu orðaskipti í þingsal í umræðu sem skapaðist þegar hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra mælti fyrir þingsályktunartillögu um endurskoðun landsskipulagsstefnu fyrir árin 2015–2026. Skilja mátti af orðum ráðherra í andsvari að vel væri hægt að hugsa sér sama fyrirkomulag varðandi fleiri innviðaþætti en við erum að fjalla um hér varðandi þessa breytingu á skipulagslögum núna og þar voru nefndir vegir, rafmagnslínur o.fl., að þessi atriði ættu í það minnsta að lúta frekari tilmælum ríkisins eða jafnvel að gengið yrði lengra eins og ráðherra nefndi að stundum hefði verið rætt, að það ætti hreinlega að heyra undir skipulagsvald ríkisins. Þá erum við kannski farin að fjalla um það sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson kom inn á varðandi ýmsa þætti sem hugsanlega gætu lotið þjóðaröryggisþáttum. Þau atriði þarf auðvitað að fjalla um á réttum vettvangi og undir réttum formerkjum.

Það er nauðsynlegt að afstaða ráðherra og skoðanir í þeim efnum séu alveg ljósar, hvort eitthvað sé undirliggjandi í þessu máli. Það er ekki gott og ekki við hæfi að svo mikilvægir hagsmunir séu kynntir og lagðir fram og jafnvel talað undir rós eða með óljósum hætti, ekki þegar verið er að tala um svona mikilvæg atriði í stjórnkerfinu. Það er alþekkt og óþarfi að draga yfir það fjöður að stór og krefjandi verkefni, þar sem mörg sveitarfélög koma að, hafa gengið hægt og dregist og tafist á undanförnum árum, jafnvel stór hagsmunamál landsvæða, svo að valdið hefur tilfinnanlegu tjóni og tafið framþróun. Þegar ráðherra lætur orð falla, þó að orðið sé frjálst og íslenskan dásamlegt tungumál sem býður upp á ótal blæbrigði, um svona viðkvæm málefni sem lúta að sjálfstæði sveitarfélaga er ekki nema von að ýmsir hrökkvi við og vilji skýringar, hvort hér liggi hugsanlega fiskur undir steini. En fyrir þinginu liggja nú mál þar sem mjög gott tækifæri gefst til að nálgast umræðuna um þessa mikilvægu þætti á eðlilegan og málefnalegan hátt. Ég nefni frumvarp um umhverfismat framkvæmda og áætlana og fyrrnefnda þingsályktunartillögu um endurskoðaða landsskipulagsstefnu. Þarna eigum við að ganga að verkefnum með opin augun, og ekki síst með opinn hug. Ég styð það að málið verði kallað að nýju til nefndar, rætt við hæstv. ráðherra og farið í saumana á þessum umdeilanlegu þáttum.