151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[19:26]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir andsvarið. Í nefndinni voru fulltrúar dálítið uppteknir af þessu atriði varðandi samskipti sveitarfélaganna, en svæðisbundnu þættirnir komu, eftir því sem ég man, mjög lítið við sögu. Það er alveg hárrétt að líklega er eðlilegt að þeim sé gefinn gaumur því að þeir eru angi af sama máli. Varðandi aðra þætti grunninnviðanna, eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom inn á í ræðu sinni, sitja sveitarfélögin og ríkisvaldið ekki við sama borð, það gildir ekki jafnræði þar. Annar aðilinn getur sett lög og hinn ekki. Þetta verður þess vegna að vera í afar góðu samráði og það verður að gera það á réttum vettvangi. Aðilar verða að semja um þessi atriði sín á milli. Vissulega eigum við þessa dýrmætu mikilvægu grunninnviði sem við verðum að styrkja betur en við höfum gert til þessa. Reynslan sýnir að við þurfum að gera það. Það eru ekki bara vegir, það eru hafnir og flugvellir vítt og breitt um landið.