151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

kostnaður við liðskiptaaðgerðir.

[13:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað sagt en að það eru ofboðsleg vonbrigði að við skulum enn vera föst í þessari stöðu með liðskiptaaðgerðirnar. Ég ætla kannski fyrst aðeins að tala um þær sérstaklega. Það er mikilvægt fyrir samfélagið, að sjálfsögðu fyrir hvern og einn einstakling sem á í hlut — við erum oft og tíðum að tala um að fólk komist aftur til vinnu — að fólk liggi ekki sjúkralegu og nái fullri virkni. Það er hreinn ávinningur, ekki bara persónulegur fyrir viðkomandi einstaklinga heldur fyrir samfélagið allt, vinnuveitendur og aðra þá sem í hlut eiga, að fjárfesta í aðgerðunum, framkvæma þær svo að viðkomandi komist aftur á ról og til fullrar virkni. Ég er enn sömu skoðunar og ég var á þeim tíma sem hv. þingmaður vísar til, við eigum ekki að sóa peningum með því að vera að greiða dýrara verði aðgerðir sem við erum sammála um að þurfi að eiga sér stað.

Ég get ekki svarað því hvers vegna staðan er eins og hv. þingmaður lýsir, ég hefði þá þurft að kynna mér það betur. Ég geri ráð fyrir að heilbrigðisráðherra geti verið til svara um það. En mín sýn hefur ávallt verið skýr: Við eigum alls ekki að senda fólk úr landi með þreföldum kostnaði til að fara í aðgerðir sem við erum sammála um að fólk eigi rétt á að fá gerðar á Íslandi.