151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

fé til að útrýma sárafátækt.

[13:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin. Bjarga verðmætum, 4 milljarðar, dropi í hafið. Einstætt foreldri sagði við mig nýlega: Hafragrautur á morgnana og hafragrautur seinni partinn eftir 15. hvers mánaðar. Þá er peningurinn búinn og þá hefur viðkomandi, eftir leigugreiðslur og önnur útgjöld, ekki efni á öðru fæði. Viðkomandi sagði að um helgar væri líka hafragrautur en þá væru hafðir með þurrkaðir ávextir, rúsínur og annað, og kanill til að fá tilbreytingu og lúxus. Getum við ekki boðið þessum einstaklingi og fleirum fimm daga dvöl á hóteli og fæði? Við gerum það með ferðamenn og erum ekki að bjarga verðmætum þar. Ég get ekki séð að ferðamenn sem koma til að skoða gosið á Reykjanesi séu að bjarga verðmætum, það er kostnaður. (Forseti hringir.) Þar af leiðandi hlýtur að vera hægt að bjóða þessum einstaklingum að fá a.m.k. fimm daga á hótelherbergi og fæði (Forseti hringir.) en best væri að gera það líkt og með störfin 7.000, fram yfir kosningar.