151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[13:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er nýsköpun í þessu frumvarpi og í nýsköpunarmálum þarf eðlilega að hrista upp reglulega. Við í atvinnuveganefnd höfum unnið vel og mikið í því að gera góðar breytingar á þessu máli sem hafa verið samþykktar hér í þingsal, allar til bóta. Við erum að tryggja samfelldar byggingarrannsóknir, svo það sé sagt, í samstarfi háskólanna hér á höfuðborgarsvæðinu og erum að opna nýsköpunargátt sem þjónar öllum landsmönnum, sem er líka nýsköpun, því að það hefur ekki verið áður, þar sem er ókeypis ráðgjöf við frumkvöðla og það skiptir miklu máli. Verið er að vinna að því að gera nýsköpun aðgengilegri fyrir alla landsmenn og við treystum því að þetta frumvarp muni verða til þess að efla nýsköpun. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin hefur verið að leggja mikla fjármuni í nýsköpun í landinu, í sjóði, um 70% aukningu, og þetta er eitt af því sem við erum að styrkja, nýsköpunarumhverfi í landinu.