151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[14:10]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það kann að vera rétt að ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar séu með ákveðið blæti fyrir því að leggja niður ríkisstofnanir, en þegar það skilar árangri og skilvirkni í ríkisrekstrinum er það skynsamlegt. Í þessu tilfelli eru allir sérfræðingar sem komu á fund nefndarinnar, meira að segja gamlir starfsmenn og yfirmenn Skattsins og skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóri sjálfur, sannfærðir um að þetta sé skynsamlegt skref sem skili árangri í skatteftirliti, en ekki síður í baráttunni við skattundanskot, skattsvik. Verið er að styrkja stofnanastrúktúrinn og styrkja okkur í baráttunni gegn skattsvikum, ólíkt því sem hér er haldið fram. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Það er rangt, hv. þingmaður, að verið sé að veikja það. Það veistu jafn vel og ég eftir marga fundi, m.a. með sérfræðingum sem allir, (Gripið fram í.)fyrir utan skattrannsóknarstjóra, mæla með samþykkt þessa frumvarps. (Forseti hringir.) Það er staðreyndin. Undan því verður ekki vikist, herra forseti, og þess vegna (Forseti hringir.) er þetta skynsamlegt og við munum ná meiri árangri í baráttunni gegn skattsvikum með þessari breytingu.