151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[14:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það rifjast upp fyrir mér að fyrir nokkrum árum vorum við að glíma við fjárlög þar sem verið var að leggja aukafjármagn í skattrannsóknir sem átti að skila inn fullt af tekjum af því að það þurfti að brúa eitthvert bil í afkomu ríkissjóðs, þetta var 2018 eða eitthvað svoleiðis. Ég hef ekki heyrt mikið um það hvernig fór fyrir þeim gjörningum, það var svona klassísk tilfærsla til að láta ríkisreikninginn líta betur út, láta fjárlögin líta betur út. Þetta er enn eitt dæmið um það hvernig er verið að giska á hvort fyrirkomulag sé betra eða ekki og undir þeim hatti að verið er að leggja niður stofnun og minnka báknið eða eitthvað svoleiðis en samt er verið að styrkja það. Maður áttar sig ekki alveg á því hvar þessi umræða er. Þegar á heildina er litið vitum við að skattundanskot eru alvarlegt vandamál á Íslandi. Við höfum í fjárlögum lagt til aukafjármagn til að ná að tækla það betur (Forseti hringir.) og sjáum engan árangur. Ég sé ekki í þessu frumvarpi að verið sé að laga það, það er alla vega ekki útskýrt á mjög skýran hátt.