151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

um fundarstjórn.

[14:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það mál sem við ræðum hér er auðvitað leiðinlegt margra hluta vegna. Ég vil bara taka undir opnunarorð hæstv. samgönguráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar. Þessi skýrsla er ekki komin til ráðherra. Til að mynda var áætlað að hún yrði kynnt af ríkisendurskoðanda á fundi umhverfis- og samgöngunefndar næstkomandi þriðjudag. Ég, sem formaður þeirrar nefndar, hef tekið þá afstöðu að tjá mig ekki efnislega um skýrsluna fyrr en sú kynning hefur átt sér stað.

Við verðum að hafa í huga að það verklag sem er uppi er af tilliti við Alþingi, þ.e. að ríkisendurskoðandi fái tækifæri til að kynna því þau atriði, þær skýrslur sem stofnunin vinnur fyrir viðkomandi þingnefnd, eða hvernig sem því er háttað í hverju tilviki. Það er sá trúnaður sem við erum að brjóta, án þess að ég sé að benda í neinar áttir. (Forseti hringir.) Ég vil að við höfum í huga að það er ekki útgjaldalaust ef breyta þarf þessu verklagi vegna leka frá okkur sjálfum.