151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

trúnaður um skýrslu.

[14:46]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langaði aðeins til að koma upp af því að við erum að tala almennt um trúnað. Ég viðurkenni að mér þykir það mjög ruglingslegt, þegar trúnaður er á alls konar gögnum og skýrslum, hvernig maður á að nálgast það. Við fengum gögn í velferðarnefnd frá heilbrigðisráðuneytinu um daginn og var trúnaður á þeim gögnum án þess að maður gæti séð að nokkur ástæða væri fyrir því að svo ætti að vera. Það gerir okkur erfitt fyrir að vinna vinnuna okkar. Svo kom náttúrlega í ljós að ekki var meiri þörf á trúnaði en svo að trúnaðinum var létt og við fengum gögnin. En þá var ekki búið að afmá einhverjar persónugreinanlegar upplýsingar, sem hefði auðveldlega verið hægt að gera. Mér finnst að trúnaður eigi bara að vera í undantekningartilvikum, þegar það er algjörlega nauðsynlegt. Annars á þetta bara að vera opið. Það er allt í lagi að birta skýrslu opinberlega og kynna þingmönnum hana seinna. Ég sé ekki að það sé ástæða til að trúnaður sé á skýrslunni, ekki ef hún á erindi við almenning og verður hvort sem er gerð opinber. Best væri að gera það strax. Þá þyrftum við ekki að vera að tala um einhverja leka.