151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

trúnaður um skýrslu.

[14:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Varðandi þessa skýrslu og skýrslur almennt þá koma þær, eins og hæstv. þingforseti hefur farið yfir, fyrst til forseta frá Ríkisendurskoðun og svo til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem hefur þrjá valmöguleika; að vinna sjálf úr athuguninni, vinna sjálf og fá umsögn frá annarri nefnd eða að vísa því alfarið til annarrar nefndar til afgreiðslu, eins og gert var í þessu tilviki, vegna þess að allir nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd óskuðu eftir þessari skýrslu og vilja fá að vinna með hana áfram.

Ástæðan fyrir töfunum er sú að við fengum skýrsluna 29. mars. Þá var páskafrí. Og eins og síðan hefur verið rakið þarf að halda fund og ákveða hvernig eigi að gera þetta. Síðan er náttúrlega hitt, eins og komið hefur fram: Þarf að vera leynd yfir skýrslunni frá upphafi? Það var ekki þannig. Því var breytt og kannski þarf að endurskoða það. Ég held að það sé næsta skref að endurskoða hvort ferlið þurfi að vera svoleiðis. Ef menn ákveða að ferlið þurfi að vera svoleiðis þá þarf að meta það. Ég er ekkert viss um að það virki hreinlega í praxís, sér í lagi ef það tekur svona langan tíma að klára það að skýrslurnar komi til afgreiðslu og séu þar af leiðandi birtar hjá nefnd, þá er þeim mögulega bara lekið út í samfélagið, út af því að við fáum þær, að sjálfsögðu. En kannski er hægt að komast að einhverri niðurstöðu um að þegar skýrsla kemur til þingsins (Forseti hringir.) komi hún hratt og vel, fjölmiðlar fái hana fyrir fram undir „embargói“. Það eru lausnir í þessum málum. Nálgumst þetta bara málefnalega.