151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

trúnaður um skýrslu.

[14:54]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég hef setið í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd undir þremur formönnum, öllum úr stjórnarandstöðunni, og hef ekki orðið var við nein vandamál við það fyrirkomulag sem uppi er varðandi skýrslur frá Ríkisendurskoðun. Þetta er trúnaður gagnvart Alþingi en ég hef líka litið á þetta sem trúnað við ríkisendurskoðanda því að við erum að vinna í sama verklagi. Það er rosalega auðvelt að halda trúnað. Það er rosalega auðvelt að tjá sig ekki um mál. Það er alveg ofboðslega auðvelt. Maður segir einfaldlega ekkert.

Ég heyri að margir hafa hugmyndir um breytingar á þessu, telja þetta ekki gott fyrirkomulag, og það er fínt. Við eigum að hafa hugmyndir um hvernig við viljum hafa hlutina og það er þá hægt að leggja það til, koma með mál, fara með þetta inn í þingskapalög, hugmyndir um endurskoðun á því. Það er bara mjög gott að við gerum það. En við hljótum að vera sammála um að við fylgjum þeim reglum sem gilda á meðan þær gilda. Við hljótum öll að vera sammála um það.