151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[15:09]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í gær vorum við að ræða frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum. Það er svolítið erfitt þegar höggvið er á umræðuna því að ástæða þess að ég bað um orðið í gær var ekki síst vegna þess að mikið var vísað í það sem ég hafði sagt hér kvöldið áður í umræðu um landsskipulag. Það verður kannski enn erfiðara að koma sér í taktinn varðandi skipulagslög eftir 40 mínútna umræðu um fundarstjórn forseta, en ég ætla þó að reyna.

Ég verð að viðurkenna að ég varð bara býsna glöð í gær þegar ég tók eftir því að hér hafði fjöldi þingmanna greinilega hlustað á ræðu mína seint kvöldinu áður um landsskipulag. Það er nú stundum þannig að manni líður eins og maður sé að tala hér við tóman sal og það séu kannski engir að hlusta. En orð hafa áhrif og dropinn holar steininn og því ber að fagna að það sem maður segir hér nái eyrum fólks.

Virðulegi forseti. Ég hef lengi haft þá sýn, líka áður en ég kom inn á þing, að hægt væri að nota landsskipulag sem tæki til að ná fram ákveðnum og ég myndi segja skynsamlegum og þjóðhagslega mikilvægum framkvæmdum þannig að það verði gert einfaldara og auðveldara að koma slíkum framkvæmdum á fót. Þá er ég að meina að í landsskipulagi gæti farið vel á því að tilgreina ákveðna mikilvæga innviði. Ég nefndi í því efni sérstaklega raflínur eða aðrar veitur, vegi, hafnarmannvirki, og ég nefndi líka flugvöll. Það er kannski þetta með flugvellina sem hefur mögulega hreyft við mjög mörgum án þess að í þeim orðum mínum hafi legið einhver sérstök afstaða til þeirra flugvalla sem við höfum í dag. Þetta gerði ég í andsvari við hæstv. umhverfisráðherra í umræðu um landsskipulag og einhverjum þingmönnum fannst hann svara þannig að það gæti vel komið til. Ég upplifði reyndar svör hæstv. ráðherra ekki með þeim hætti. Mér fannst spurning mín ekki ná jafn miklum áhrifum og ákveðnir þingmenn virtust hafa áhyggjur af. En þá nefndi ráðherra þetta frumvarp sem við ræðum hér, sem er breyting á skipulagslögum. Ég verð að viðurkenna að það felur í mínum huga í sér allra minnstu skrefin sem við getum stigið í þessum efnum en það eru þó mikilvæg skref. Hér getum við afgreitt raflínur sem fara yfir sveitarfélög með sérstakri raflínunefnd sem gæti komist að slíku samkomulagi.

Það er ekki að ástæðulausu sem ég ræði þetta og velti þessu upp og það er heldur ekki að ástæðulausu að hæstv. ráðherra kemur fram með þetta frumvarp. Það er reyndar svo að það var markmið í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar að yfirfara, nú man ég ekki nákvæmlega orðalagið, skipulag og framkvæmdir. Það er tekið á því í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Það snertir þá umræðu, sem hefur verið töluverð, að við séum búin að byggja of flókið kerfi í kringum skipulagsmál, mat á umhverfisáhrifum, framkvæmdum og öðru þess háttar. En það sem kveikti elda og dreif fólk enn áfram í því að það væri algjörlega nauðsynlegt að ráðast í einhverjar breytingar var fárviðrið sem gekk yfir Ísland í desember 2019. Þá varð mikið tjón, samgöngur lögðust af og atvinnulíf lamaðist víða. Það urðu gríðarlegar truflanir í flutnings- og dreifikerfi rafmagns. Það vakti upp þá mikilvægu umræðu að okkur hefur ekki tekist að tengja landið allt og tryggja rafmagnsöryggi þrátt fyrir að við eigum þetta mikilvæga umhverfisvæna rafmagn. Það er sem sagt ekki þannig að okkur vanti rafmagn. Við eigum það til í kerfinu, en samt sem áður hefur þurft á ákveðnum svæðum að fjárfesta í dísilvélum og drífa raforkuna áfram þannig þegar eitthvað bjátar á vegna þess að okkur hefur ekki tekist að byggja upp dreifikerfið. Það er auðvitað gríðarlega mikið vandamál sem nauðsynlegt er að ráðast í.

Ég fagna því skrefi sem hér er stigið með þessu frumvarpi en ég verð líka að segja að hefði ég verið umhverfisráðherra á þessu kjörtímabili hefði ég viljað fara í heildarendurskoðun á skipulagslögunum með það að markmiði að tryggja skýrari framtíðarsýn um það hvernig við hyggjumst skipuleggja og byggja upp innviði hér á landi. Með því er ég ekki að segja að ekki eigi að fara í umhverfismat eða huga að umhverfisþáttum eða að ekki eigi að tryggja að einstaklingar, hagaðilar og félagasamtök hafi fullt aðgengi að koma sínum athugasemdum á framfæri þegar ráðist er í miklar framkvæmdir. Það er ofboðslega mikilvægt. En það þarf einfaldlega að létta á því gríðarlega torfi sem við höfum byggt upp í kringum skipulagsmál og framkvæmdir á svona mikilvægum innviðum.

Vandamálið, eða eigum við að segja verkefnið, sem líkt hefur verið við bleika fílinn í þessum sal þegar við ræðum þessi mál, er svo sjálfsákvörðunarvald sveitarfélaga og sjálfstæði þeirra, sem er jú tryggt með stjórnarskránni. Ég starfaði um árabil í sveitarstjórn og við skipulagsmál og mér finnst skipulagsvald sveitarfélaga gríðarlega mikilvægt. En það er ofboðslega flókið þegar það þarf að skipuleggja t.d. raflínur, þær eru auðvitað besta dæmið þar sem þær fara á milli margra sveitarfélaga. Svo kemur upp að eitthvert eitt sveitarfélag er bara ekki á sömu blaðsíðu og öll hin og leggst gegn þessu. Það eru ekki bara þessir þættir sem kann að vera búið að fara í gegnum, við erum með svæðisskipulag og það er aðalskipulag í hverju sveitarfélagi og svo kemur að framkvæmdunum sjálfum og svo er hægt að kæra og það er hægt að kæra á öllum vettvangi í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Það er það sem ég held að þetta frumvarp sé að vinna með, að reyna eins og kostur er að einfalda það. Það er mikilvægt og ég styð það.

Að þessu sögðu var það líka rætt svolítið hér í gær og ég hjó eftir því að það er mjög skýrt í nefndarálitinu hvað nefndin er að hugsa; þau tala um að raflínunefndin megi alls ekki verða eitthvert fordæmi fyrir aðrar leiðir, til að stíga einhver skref að því að taka sjálfsákvörðunarrétt eða skipulagsvald af sveitarfélögunum. Ég skil það sjónarmið. Ég sagði áðan að mér fyndist skipulagsvald sveitarfélaganna og sjálfstæði þeirra mjög mikilvægt, en það er samt svo að ég hef verið meðflutningsmaður á tveimur frumvörpum er lúta að því að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögum. Það er frumvarp um lagningu vegar um Teigsskóg og svo Suðurnesjalína. Það er ekki vegna þess að ég vilji taka þetta vald af sveitarfélögum heldur er þetta uppgjöf. Þetta er uppgjöf gagnvart því kerfi sem við höfum byggt upp, uppgjöf gagnvart því að okkur takist að framkvæma hér mikilvægar framkvæmdir. Ég held að það sé ekki til eftirbreytni að við á Alþingi séum að koma fram með slík frumvörp. Þess vegna held ég að verkefnið snúist um að við tryggjum þennan lagaramma enn frekar.

Virðulegur forseti. Mér finnst mikilvægt í ljósi þeirrar umræðu sem varð hérna í gær að þingmenn átti sig á því að það erum jú við hér inni sem erum löggjafinn þannig að það er alveg skýrt í því frumvarpi sem hér er og því nefndaráliti sem um það fjallar hvað verið er að leyfa. En ég er þó að nota rödd mína til að segja að ég vil ganga enn lengra. Ég átta mig fullkomlega á því að það er flókið og það verða aldrei allir sammála um það. En í ljósi þess að við höfum rekið okkur of oft á það að komast ekki áfram með mikilvægar framkvæmdir þá finnst mér við þurfa að horfa á nýjar leiðir. Og sú leið sem ég hef lagt til í þeirri umræðu er landsskipulagið.

Þá ætla ég að endurtaka það sem ég sagði í því stutta andsvari sem ég átti um landsskipulag: Ég beini þeim tilmælum til hv. umhverfis- og samgöngunefndar þegar þau fjalla um landsskipulagið að þau velti því fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt að setja í nefndarálit að við næstu endurskoðun landsskipulags skuli horft til þess hvernig skipuleggja eigi mikilvæga innviði sem ná yfir landið allt.