151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

fiskeldi.

265. mál
[15:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. framsögumanni nefndarinnar, Njáli Trausta Friðbertssyni, fyrir framsöguna. Það má segja að það komi ekki sérstaklega á óvart að gera þurfi ákveðnar breytingar á lögunum sem voru samþykkt hér fyrir ekki löngu. Þá voru ýmsar athugasemdir settar fram sem hefði verið skynsamlegt að hlusta á strax. En látum það liggja á milli hluta.

Mig langar að spyrja hv. framsögumann út í tvö atriði. Annað snýr að afmörkun á lágmarksverði sem fjallað er um í nefndarálitinu og hitt að því hvort ekki sé nauðsynlegt að skilgreina betur frumkvöðlaréttinn í lagatextanum, t.d. hvert sé innbyrðis vægi matsþátta. Í báðum tilvikum er boltanum í rauninni vísað til sjávarútvegsráðherra hvað það varðar að setja reglugerð um þá tvo þætti. Mér hefði þótt fara betur á því að Alþingi og atvinnuveganefnd sendi skýrari skilaboð um hvað þingið sæi fyrir sér af því að verið er að bregðast við ágöllum á lögunum sem voru sett hér og eru til grundvallar þessari breytingu.

Spurningin til hv. framsögumanns er því: Var fjallað um þetta og tekin ákvörðun um það í nefndinni að afmarka eða ramma ekki lágmarksverðið betur inn en þarna er gert? Og sömuleiðis: Var tekin sérstök ákvörðun um það í nefndinni að hafa ákvæðið um frumkvöðlarétt jafn opið og þarna er og afhenda sjávarútvegsráðherra það verkefni að ramma bæði þessi mál inn í reglugerð?