151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

fiskeldi.

265. mál
[15:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var umræða sem var tekin í nefndinni og kannski erfitt að ná utan um það hér og ræða í pontu Alþingis nákvæmlega hvernig lágmarksverðið myndast. Fyrir því geta verið ólíkar forsendur. Það er eitthvað sem verður bara að meta í þessu umhverfi. Það er bent á, og kemur fram í frumvarpinu ef ég man rétt, að það getur verið 10.000 tonna eldi í einhverjum firði. Þar geta verið tveir aðilar sem eru kannski með 4.000 tonn hvor og síðan eru 2.000 tonn laus og þá geta þeir boðið í þau. En það er náttúrlega mjög erfitt að ná utan lágmarksverðið, hvert það verður. Það geta verið mjög mismunandi aðstæður hverju sinni. Það var erfitt að fást við þann þátt í nefndinni, hvernig ætti að setja hann niður, og ég held að nefndarmenn sem sátu þessa fundi séu sammála því.

Frumkvöðlarétturinn er líka töluvert erfitt hugtak og við ræddum það töluvert mikið í nefndinni efnislega og kölluðum eftir upplýsingum um það hvernig við gerum matskerfi, matrixur, excel-skjöl upp úr því að gera huglæga hluti hlutlæga og annað. Það getur verið býsna flókið. Það varð niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að ráðuneytið myndi leysa úr því hvernig það yrði skilgreint í framhaldinu. Það er svona það efnislega sem ég get sagt um þetta. Það er ekki einfalt að fást við þessi málefni eins og við þekkjum hér af öðrum dæmum í störfum þingsins þegar við erum að fást við það að gera huglæga hluti hlutlæga.