151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

fiskeldi.

265. mál
[16:03]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jæja, loksins, segi ég. Nú hafa Miðflokksmenn vaknað. Þeir tala hér um mistök sem hafi verið gerð í lagasetningu fyrir tveimur árum, mistök sem þeir skrifuðu þá undir. Fulltrúar Miðflokksins í nefndinni skrifuðu án fyrirvara undir það nefndarálit. Við erum búin að fjalla vel og lengi um þetta mál núna, lífmassafrumvarpið, í nefndinni. Hvar eru tillögur Miðflokksins? Eru þær enn þá þarna úti og hafa ekki birst? Ef við ætlum að kalla málið inn til nefndarinnar þá spyr ég bara: Hverjar eru tillögurnar? Komið með þær. Við höfum verið að fjalla um þetta mál og eins og fulltrúa Miðflokksins í nefndinni á að vera kunnugt um er það mjög vandmeðfarið að taka utan um frumkvöðlana, sem við öll í nefndinni vildum gera. En við erum að tala um svæði, þetta eru fimm firðir, og þetta þarf að vera nógu almennt. Eigum við að tala um frumkvöðlana í Ísafjarðardjúpi? Eigum við að hjálpa þeim? Hverjir eru frumkvöðlar í Arnarfirði eða fyrir austan? Við verðum að hafa það almennt svo að allir geti við unað. Við megum ekki taka einn fram fyrir annan. Það er línan sem við verðum að dansa á. En ég kalla eftir því: Hverjar eru hugmyndir og tillögur Miðflokksins? Þær hafa ekki birst í nefndinni hingað til.