151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

fiskeldi.

265. mál
[16:05]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var lífleg ræða hérna. Ég verð bara að segja eins og er: Loksins vaknaði Miðflokkurinn. Hvaða umræða hefur farið fram þverpólitískt um þetta mál í nefndinni? Ég hef ekki orðið var við það, ekki mjög mikið efnislega. Ég vil benda hv. þingmanni á það að við gerðum breytingartillögu á sínum tíma á síðustu metrunum, sá sem hér stendur og hv. þm. Bergþór Ólason. Kannski er þingmaðurinn búinn að gleyma því. Bara svo það sé sagt. Það sem ég er að kalla eftir með því að fá málið aftur inn í nefnd er í raun og veru að fá niðurstöðu um það, á mannamáli, hvað frumvarpið er að segja okkur, það er mjög loðinn texti í þessu frumvarpi, og síðan er það umsögnin sem ég rakti hér frá Hábrún við Ísafjarðardjúp, hvort það sé hægt að bregðast við því hvernig þeir fóru út úr lagasetningunni vorið 2019. Þannig að ef hv. þingmanni finnst að sá sem hér stendur hafi verið sofandi þá er viðkomandi þingmaður vaknaður. En ég held að ég hafi ekkert verið sofandi. Meiri hluti atvinnuveganefndar sá alveg um og á heiðurinn af því hvernig komið er fyrir þessu máli. Það er ekki hægt að kenna okkur í Miðflokknum í atvinnuveganefnd um þetta klúður, hv. þingmaður.