151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

fiskeldi.

265. mál
[16:07]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Nei, ég hélt alla vega að hv. þm. Sigurður Páll Jónsson hefði verið vakandi allan tímann, ég varð ekki vör við annað, og tók þátt í allri umræðunni. En ég er að kalla eftir tillögum sem hljóta þá að vera komnar á kreik um hvernig við getum skýrt þetta betur. Það er vandmeðfarið að taka utan um þetta, eins og hv. þm. Bergþór Ólason kom inn á áðan, að við ættum að reyna að skilgreina frumkvöðla nánar til þess að leggja það í hendur ráðherra. Ég kalla eftir þeirri skilgreiningu því að almenn skilgreining frumkvöðla er til. Við tölum um og tökum það inn eins og hér segir:

„Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið og telur mikilvægt að komið sé til móts við þá aðila sem upphaflega hrintu í framkvæmd fiskeldi við áður óþekktar aðstæður og tóku þannig af skarið við uppbyggingu þeirrar atvinnugreinar til hagsbóta fyrir samfélag þess svæðis.“

Er þetta ekki skýrt? (Gripið fram í.) Þetta er röð hlutanna sem við viljum að komi fram. Ég kalla enn eftir þessum tillögum. Af hverju komu Miðflokksmenn þá ekki með nefndarálit eða breytingartillögu við málið? Það er ekki eins og það hafi verið keyrt í gegnum nefndina á einhverjum ógnarhraða. Ef allir hefðu verið með þá ætti þessi tillaga frá Miðflokknum að vera tilbúin.