151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

fiskeldi.

265. mál
[16:10]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég tek hér þátt í 2. umr. um lífmassamálið svokallaða og ætla að bæta við þá umræðu sem fram fór á meðal þingmanna Norðvesturkjördæmis sem hér töluðu á undan. Ég vil einungis að segja að við meðferð málsins í nefndinni þá verður sú efnisbreyting að horft er til frumkvöðla með þeim hætti sem hv. framsögumaður nefndarinnar, Njáll Trausti Friðbertsson, fór vandlega yfir í framsögu sinni áðan. Ég sat ekki í atvinnuveganefnd á þeim tíma sem unnið var í heildarlöggjöfinni um fiskeldismál, settist í nefndina seinni part síðastliðins hausts og þannig kom ég að þessari löggjöf tiltölulega nýlega. Ég hef þó tekið þátt í meðferð þessa máls sem hefur verið allítarleg og á mörgum fundum þannig að ég kannast ekki við umræðuleysi um þingmálið í hv. atvinnuveganefnd.

Það eru tveir þættir sem mig langaði að draga fram hérna í umræðunni. Í fyrsta lagi um þá breytingu sem gerð var í nefndinni á heildarlöggjöfinni, þ.e. á frumvarpinu sem kom inn til nefndarinnar frá ráðherra, sem hefur verið kallað önnur skil í frumvarpi heldur en ráðherrann lagði fram. Þar kristallast kannski þessi umræða um frumkvöðla og um hagsmuni einstakra fyrirtækja sem hófu eldi fyrir löngu síðan og ruddu brautina að mörgu leyti. Ég ætla þá einungis að segja að sú breyting sem þá varð á frumvarpinu var til þess, eðli málsins samkvæmt, þess vegna varð hún, að tryggja víðtækari pólitíska sátt um framhald málsins og setningu laganna á sínum tíma. Það er ekki óþekkt fyrirbæri hér í þinginu að það þurfi að miðla málum til þess að ná saman um efni þingmála sem hér eru afgreidd. Eigendur tiltekins fyrirtækis sem hér hefur verið nefnt gerðu athugasemdir við það og lýstu hvernig þeir hefðu farið út úr þeirri stöðu og ekki ástæða til að rengja á nokkurn hátt þeirra málflutning, hvað það þýddi fyrir þá. Það var hins vegar ljóst mjög snemma að það var ekki í boði að færa til þennan skurðpunkt svokallaðan í löggjöfinni og bregðast við með þeim hætti.

Hitt atriðið sem ég vildi draga fram kom ágætlega fram í andsvari hv. þm. Bergþórs Ólasonar við framsögumann nefndarálitsins um hvað væru frumkvöðlar. Ég ætla ekki að segja að ég sé ósammála hv. þm. Bergþóri Ólasyni um að það hefði mátt ramma það betur inn. Það ræddum við í nefndinni. Mér finnst við samt ekki geta lokað augunum fyrir því að við göngum mjög langt í þeirri skilgreiningu sem liggur fyrir í textanum þar sem segir að þeir hafi reynslu og þekkingu á svæðinu og eldi til allt að tíu ára. Þeir eru ekki mjög margir á því svæði. Það er hins vegar ekki bara eitt fyrirtæki sem þarna er undir og af því að við erum að fást við löggjöf sem er almenn þá held ég að það sé afar vafasamt að fara inn á þá braut að þrengja þann hring meira svo að við séum ekki beinlínis í sértækri lagasetningu sem þjónar hagsmunum eins umfram annan þó svo að það fyrirtæki hafi með skýrum hætti með umsögn til nefndarinnar dregið fram hvernig það fór út úr þeim breytingum á frumvarpinu sem gerðar voru, þann tiltekna skurðpunkt sem færður var til. Ég lít hins vegar svo á hvað varðar þann skurðpunkt og það sem gekk síðan í framhaldinu að þá hafi fyrirtækið almennt staðið jafnt að vígi við að bregðast við því og vinna með það.

Sú breyting á frumvarpinu sem við ræðum hérna núna, lífmassafrumvarpinu, sem verður svona einskiptisaðgerð því að síðan á þessi staða raunverulega ekki að geta komið upp, að það þurfi að koma aftur inn með ákveðin svæði, er kannski ekki síst unnin fyrir tilstilli áskorunar og umsagnar sem barst frá bæjarráði Ísafjarðarbæjar. Það er eðlilegt að hún kæmi þaðan því þar hafa menn í langan tíma verið að fikra sig áfram með þessa atvinnugrein sem nú mælist sem einn mesti vaxtarsproti okkar efnahagslífs í dag. Mér þótti ákaflega vænt um að sjá í nýframlagðri fjármálaáætlun og heftinu sem henni fylgdi að sérstaklega var tekið utan um það hvernig útflutningsverðmæti eldisafurða væri að vaxa hér og hversu mikil og stór stoð eldið væri orðið fyrir íslenskt efnahagslíf. Ég nefni það hér af því að mér finnst við oft tala um fiskeldi af þeirri léttúð að þetta sé enn þá bara eitthvert þannig fyrirbæri að menn séu að spreyta sig en þetta er nú þegar orðin gríðarlega öflug atvinnugrein sem er farin að skila miklum verðmætum. Ég ætla ekki að rekja það hér, virðulegi forseti, hversu gríðarlega miklu þetta hefur skilað fyrir þau byggðarlög sem við hana búa, sérstaklega vestur á fjörðum. En þar eru líka margir vaxtarverki sem ég freistast til að nefna hérna líka þar sem við höfum ekki haft í raun stoðirnar í kringum svo hratt vaxandi atvinnulíf nægilega burðugar. Þar nefni ég fyrst og fremst samgöngur í þeim efnum.

Ég ætla þá bara að draga þetta saman með því að segja að meiri hlutinn er að bregðast við innan þess ramma sem mögulegt er að ná samstöðu um, alla vega hér í þinginu. Við erum þá komin á þann stað að horfa til þessara frumkvöðla sem við höfum nefnt hér og við skilgreinum þá nokkuð hraustlega eða nokkuð ítarlega, þó með þeim hætti að verið er að skjóta undir almenna nálgun á málinu en ekki einhverjar sértækar lausnir í þeim efnum. Að því sögðu segi ég að við meðferð þessa máls í hv. atvinnuveganefnd, alla vega eftir að ég settist þar inn, hafi verið skilningur á þeim sjónarmiðum sem fram voru færð fyrir nefndina og þau hlotið hljómgrunn og við leggjum því til þær breytingar sem hv. framsögumaður hefur rakið í framsögu sinni.