151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

fiskeldi.

265. mál
[16:22]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Rétt eins og hv. þm. Bergþór Ólason nefndi í seinna andsvari sínu var ég ekki í nefndinni þannig að ég þekki ekki hvort einhverjir nefndarmenn hafi haft vitneskju um áhrif af tilfærslu skurðpunktsins. En ég hef spurt nefndarmenn sem voru á þeim tíma að því og samkvæmt þeim þá var svo ekki. Ekki frekar en núna að við hefðum reynt að meta þá breytingu sem við erum að leggja til til áhrifa fyrir einstök fyrirtæki. Ég held að það sé frekar til góðs að gera það ekki, þ.e. að við séum ekki að máta tillögur okkar út frá hagsmunum einstakra fyrirtækja. Það finnst mér vera miklu heiðarlegri vinnubrögð, ef ég má nota það orð, virðulegi forseti. Það má deila um hvaða orð á að nota í þeim efnum. Við séum ekki að meta breytingar þingsins út frá hagsmunum einstakra fyrirtækja. Þá erum við að brjóta þá meginreglu sem við þurfum alltaf að hafa í huga þegar við erum að vinna með þingmál af þessari gerð sem hafa mikil áhrif á einstök fyrirtæki, að við séum ekki að máta þau út frá hagsmunum einstakra fyrirtækja.