151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum.

555. mál
[18:45]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla byrja þar sem hv. þingmaður endaði með því að minna á það þjóðþrifamál, leyfi ég mér að kalla, að efla stuðning við almannaheillasamtök, vegna þess að þar liggur mikil þekking á mjög víðtæku sviði. Hv. þingmaður nefnir sveitarfélögin. Sveitarfélögin eru nefnilega alveg meðvituð um þetta og það hefur komið fram í umsögnum þeirra við þetta mál. Þau segja að tvennt skorti, þ.e. útfærða áætlun og að fjármagn fylgi. Þetta þarf ekki að kosta mjög mikla peninga. Í öllum sveitarfélögum eru þessar stofnanir sem við nefnum; skólasamfélagið, vinnustaðirnir, íþróttahreyfingin og ungmennafélögin sem kunna þetta. Við sjáum þetta átak ganga vel upp til að mynda í Danmörku. Við þurfum ekkert að finna upp hjólið í þessu.

Það er óumdeilt og það stefnir hraðbyri í það, þegar við tölum um að ná jafnvægi á milli tekna og gjalda við þær aðstæður sem við búum við í dag, að 6 af hverjum 10 kr. af skattpeningum almennings fari í velferð, í heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið. Og stærstur hluti af því eru bara viðgerðir. Ég las hér upp hlutfallslegar tölur, hvað er hægt að bæta á því sviði. Kostnaðurinn er svo miklu, miklu meiri af því að fara ekki í markvisst átak þarna en kostnaðurinn við átakið sjálft. Þekkingin, reynslan, kunnáttan og skilningurinn er miklu meiri og er til staðar. Þetta kallar bara á útfærða áætlun (Forseti hringir.) sem þessi tillaga boðar í raun og veru. Hún kallast mjög vel á við stefnu hæstv. heilbrigðisráðherra, lýðheilsustefnu til 2030.