151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

kynjavakt Alþingis.

564. mál
[18:47]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég mæli hér í fjórða sinn, að ég hygg, fyrir þessari tillögu. Við þekkjum það sum hér í þessum þingsal að stundum þarf að flytja málin aftur og aftur og óvíst um afdrif þeirra. Mér þykir býsna vænt um þetta mál, bæði vegna þess að það er tiltölulega lítið og einfalt, en líka vegna þess að það er býsna gott, einfalt og rétt að samþykkja það. Árið 2017, árið eftir að ég kom á þing, varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vera sendur fyrir hönd Alþingis á fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York, og var það í fyrsta sinn frá hruni sem Alþingi Íslendinga sendi fulltrúa á þann fund. Þar kynntist ég þessum vísum sem hér er fjallað um, kynjavísum, kynnæmum vísum, sem Alþjóðaþingmannasambandið notar. Þetta er ein af þeim aðferðum sem gott er að nota til að meta stöðu kynjanna, til að meta stöðu jafnréttis. Ég held að við ættum öll að vera sammála um að það sé gott að meta stöðu jafnréttis og raunar segjum við á hátíðarstundum að við séum öll sammála um að jafnrétti eigi að vera sem mest. Þess vegna hafa það orðið mér eilítil vonbrigði að við sem segjum þetta skulum ekki hafa borið gæfu til að klára þetta mál.

Tillagan fjallar um að Alþingi álykti að fela forseta að koma á fót kynjavakt Alþingis, sem geri úttekt á því hvort og hvernig kyn hefur áhrif á aðkomu að ákvarðanatöku innan Alþingis, hvernig ályktunum Alþingis og aðgerðaáætlunum ríkisstjórna í jafnréttismálum hefur verið framfylgt og skoði næmi Alþingis fyrir ólíkri stöðu kynjanna samkvæmt kynnæmum vísum Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU.

Til að tryggja fjölbreytt sjónarmið komi þátttakendur í kynjavakt Alþingis úr ólíkum áttum. Að vinnunni komi bæði fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu, karlar og konur. Fulltrúi skrifstofu Alþingis sitji í hópnum, sem og fulltrúi starfsmanna Alþingis. Haft verði samráð við jafnréttisnefnd skrifstofu Alþingis.

Kynjavaktin skili forseta Alþingis skýrslu fyrir 1. apríl ár hvert og forseti leggi skýrsluna fyrir Alþingi.

Þetta er tillagan í hnotskurn, forseti. Í henni er síðan listi yfir þær upplýsingar sem m.a. verði teknar saman og styðjast við þessa alþjóðlegu vísa þar sem er í raun aðeins verið að tala um að fylgst sé með stöðunni, kynjavaktin verði nokkurs konar barómet á stöðuna í þessum málum, hvar ákvarðanirnar séu teknar, hvernig staða kynjanna sé o.s.frv. Þetta hefur verið rætt hér nokkrum sinnum og hafa mjög gjarnan komið fram sjónarmið gegn þessu, að þetta sé vitleysa og óþarfi — allt í góðu með það — en líka þau sjónarmið að fólk á dálítið erfitt með að horfa á Alþingi sem einn vinnustað, að það sama gildi varðandi þingheim, þjóðkjörna fulltrúa og svo starfsfólk Alþingis. Ég get borið einhverja virðingu fyrir þeim sjónarmiðum en engu að síður er þetta vinnustaður okkar allra og þeir alþjóðlegu vísar sem notaðir eru gera ráð fyrir þessu og staða jafnréttismála er okkur öllum hugleikin, sama hvort við erum þjóðkjörin eða ráðin hér til starfa. Fjölmörg þjóðþing hafa tekið upp slíka kynjavakt sem hér er kveðið á um þannig að það er ekki eins og það sé róttæk tillaga til að fylgjast með jafnrétti kynjanna. Í Finnlandi er sérstök nefnd að störfum á vegum þingsins í þessum málum.

Kynjavaktinni er ætlað að meta stöðuna í þessum efnum og fylgja eftir þegar með þarf, svo og að greina aðstöðu kynjanna til að hafa áhrif og gera úttekt á þeim reglum og lögum sem í gildi eru varðandi jafnrétti kynjanna.

Forseti. Að mínu viti væri stórt og framsækið skref ef Alþingi myndi bera gæfu til að klára þetta. Kynjavakt Alþingis væri nefnilega framsækið tæki í baráttunni fyrir fullu jafnrétti kynjanna innan Alþingis.

Ég ætla ekki að hafa mína framsögu mikið lengri. Þó langar mig að vitna örstutt í nokkrar umsagnir sem borist hafa um þetta mál á fyrri þingum svo við áttum okkur á því að stuðningur við það er býsna víðtækur.

Við berum niður á árinu 2019 þar sem Jafnréttisstofa segir, með leyfi forseta: „Jafnréttisstofa styður þessa tillögu heils hugar og telur að kynjavakt Alþingis sé þörf viðbót við störf þingsins.“

Mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar segir, með leyfi forseta: „Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar tekur þingsályktunartillögu um kynjavakt fagnandi.“

Frá BSRB, með leyfi forseta: „BSRB fagnar tillögunni og hvetur til þess að hún verði tekin til afgreiðslu á Alþingi.“

Að lokum frá Kvenréttindafélagi Íslands: „Kvenréttindafélag Íslands styður heils hugar þessa tillögu til þingsályktunar til að koma á fót kynjavakt Alþingis.“

Og þar er klykkt út með orðunum:

„Kynjajafnrétti er grundvöllur hagsældar og velferðar og án valdeflingar og þátttöku kvenna á opinberum vettvangi er ekki hægt að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um frið, jafnrétti og lýðræði.“

Forseti. Við höfum innan þings stigið ágætisskref til framfaraáttar í þessum efnum og ýmsar tillögur varðandi endurskoðun á þingsköpum og fleira og þeim starfsreglum sem um okkur gilda eru til bóta. Ég er ekki í nokkrum vafa um að allir þeir aðilar sem ég vitnaði hér til, alþjóðasamfélagið sem fer eftir þessum vísum, þau þjóðþing sem hafa jafnvel heilu þingnefndirnar starfandi sem fylgjast með þessu, Alþjóðaþingmannasambandið o.s.frv., hafa rétt fyrir sér um að það sé gott og rétt að stíga það skref að koma á fót kynjavakt fyrir þjóðþing, það sé framsækið tæki í baráttunni fyrir fullu jafnrétti kynjanna innan Alþingis.