151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

aðgerðir í sóttvörnum.

[13:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Því miður er það skollið á sem maður óttast mest; veiran er komin á fleygiferð. 27 kórónuveirusmit innan lands, 49 um helgina. Af þeim 27 sem greindust í gær voru 25 í sóttkví. En það er villandi því að flestir þeirra fóru í sóttkví á laugardaginn. 386 í sóttkví og 922 í skimunarsóttkví. Á sama tíma og þetta er að ganga yfir okkur algerlega að óþörfu, eru Ástralía og Nýja-Sjáland að opna á frjálst flug á milli landanna. Frjálst flug, engar grímur, ekkert að. Tvær eyþjóðir sem sýndu nákvæmlega hvernig fara á að því að berjast við veiruna. En ríkisstjórnin okkar er ekkert með plan B eða C, heldur Þ, Æ eða Ö.

Nú er loksins verið að bólusetja fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Þar er um 30.000 manns að ræða, veikt fólk sem hefur verið einangrað mánuðum saman og hefur ekki getað farið í röð eftir mat, hvað þá pantað á netinu vegna fátæktar. Hafragrautur á morgnana, hafragrautur á kvöldin. Það er hægt að kaupa ótrúlega marga hafragrauta fyrir hækkunina á barnabótum, sagði hæstv. fjármálaráðherra. Er hæstv. forsætisráðherra sammála honum um það og telur hún ekki tíma hinna fátæku vera kominn? Er ríkisstjórnin með á dagskrá sinni núna að gera eitthvað fyrir þennan fámenna hóp fátækra, eins og hæstv. fjármálaráðherra telur hópinn vera? Ef þeirra tími er kominn, hvað er verið að gera? Og ef ekki, hvers vegna er ekkert á dagskrá ríkisstjórnarinnar fyrir þennan hóp núna, sem því miður er þannig ástatt með að hann á ekki fyrir mat út mánuðinn?