151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

668. mál
[15:47]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um þakkir til framkvæmdastjóra flokkanna fyrir gott starf. Það er vissulega rétt, sem hv. þingmaður nefndi, að það er ekki eins og ekki sé ákveðinn meiningarmunur á milli flokkanna en framkvæmdastjórar lögðu sig svo sannarlega fram til að leysa úr þeim ágreiningi sem upp kom. Jú, ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta mál nái fram að ganga, bæði fyrir kosningar í haust, til að mynda hvað varðar nafnlausan áróður þar sem við erum að skerpa enn frekar á þeim ákvæðum sem við samþykktum fyrr á þessu kjörtímabili.

Ég tel líka að það sé mikilvægt að ákvæði um til að mynda samspil þessara laga og laga um persónuvernd verði skýrð sem fyrst. Það mun að sjálfsögðu koma upp af því að stjórnmálaflokkar eru ekki fyrirtæki á markaði heldur félagasamtök sem þurfa að geta haft samskipti við sína félaga en um leið er mikilvægt að þeir gæti vel að því hvernig þau samskipti eru, að þær reglur séu skýrar. Ég held því að það skipti máli að frumvarpið nái fram að ganga til þess að skýra línurnar í kringum samskipti stjórnmálaflokka við sína félaga sem er auðvitað undirstaðan fyrir öllu grasrótarstarfi.

Ég vonast til þess, í ljósi þeirrar miklu vinnu sem átti sér stað við undirbúning þessa máls, að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd forgangsraði þessu máli og við getum lokið því fyrr en síðar og vonandi bara nú í maímánuði.