151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[17:24]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu vegna þess að það er allt of sjaldan sem við eigum góðar umræður um peningastefnu og peningamál hér, sérstaklega á síðustu tveimur árum. Það þarf eiginlega ekki mjög mikið til að egna mig upp í umræðu um peningastefnu, ekki síst vegna þess að hérna er ágætistillaga á ferðinni um að kannað verði hvort ekki sé hægt að taka upp betra fyrirkomulag og einmitt í þessu tilviki óskað eftir viðræðum við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir, sem ég held að sé lykilpunkturinn í þessari tillögu, alla vega að mínu mati. Það hefur borið á því í umræðunni fram að þessu að fólk hefur verið að reyna að gera þetta að einfaldaðri, pólaríseraðri umræðu, þ.e. það er einhvers konar tvíhyggja í gangi um að það skuli annaðhvort vera frífljótandi íslensk króna — fljótandi íslensk króna er kannski tæknilega séð réttara — eða þá upptaka á evru. Eins og alltaf í svona umræðu eru ákveðnar rangfærslur í gangi um hvernig það gengur fyrir sig. En reyndin er sú að þetta er allt saman miklu flóknara en svo og skemmtilegra en svo að það séu bara tvær leiðir færar.

Í greinargerð tillögunnar er vísað í skýrslu sem heitir Valkostir Íslands í gjaldeyris- og gengismálum sem er frá árinu 2012 og kannski alveg ástæða til að fara að endurnýja hana enda orðin næstu tíu ára gömul. Hún var ágæt á sínum tíma, skemmtilegur lestur. En mér fannst áhugavert og kannski gagnrýnisvert við þá skýrslu að hún vann ekki út frá þeim verkfærum sem eru til á heimsvísu. Árlega frá alla vega 2004 hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gefið út skýrslu sem í upphafi var tiltölulega einföld en er núorðið ansi góð og öflug sem heitir, með leyfi forseta „Annual Report on Exchange Arrangements and Exchange Restrictions eða á íslensku Ársskýrsla um fyrirkomulag gengisstefnu og viðskiptahátta. Eitt af því sem er alltaf áhugavert að skoða í þeirri skýrslu er listi yfir nokkurn veginn öll lönd í heimi og það hvaða fyrirkomulag þau nota og það eru til ansi mörg kerfi. Það sem helst aðgreinir þau er annars vegar að þau vinna út frá því að það sé einhvers konar fyrirkomulag gengisstefnu og hún er aðskilin frá peningastefnu. Það er hægt að vera með nokkurn veginn hvaða peningastefnu sem er og síðan vera með einhvers konar fyrirkomulag á gengisstefnu á móti. Hvað peningastefnuna varðar eru kannski helstu dæmin verðbólgumarkmið, eins og við erum með Íslandi. Það er peningamagnsmarkmið sem reynir að stilla í hóf breytingum á peningamagni í umferð, sem margir hafa talað fyrir á síðustu árum. Svo eru mörg lönd með gengismarkmið. Síðan er reyndar flokkur 45 landa sem eru með eitthvert annað fyrirkomulag en þessi þrjú helstu og þau eru af ýmsum toga. Þar mætti t.d. nefna Aserbaídsjan sem var með akkerisbindingu við bandarískan dollar þangað til að mig minnir 2015 þegar olíuverð hrundi og þau þurftu að breyta út af því þannig að núna eru þau með annað fyrirkomulag. Síðan á móti þessu eru lönd sem eru með einhvers konar akkeri, binda sig við bandaríkjadollar, við evru, við einhvers konar myntkörfu eða í einhverjum tilfellum við eitthvað annað en þetta. Í þeim flokkum er kannski ekki beint myntkarfa heldur alþjóðleg vísitala eða eitthvað álíka. Þær leiðir sem eru færar eru m.a. einhliða notkun annars gjaldmiðils og sumir hafa sagt að hér sé sú tillaga á ferðinni. Það eru ekki mörg lönd sem stunda það, en flest nota þau þá bandaríkjadollar. Það eru nokkur lönd sem eru að nafninu til með einhliða notkun á evru en í rauninni er það samningsbundið, það eru Kósóvó, Svartfjallaland og San Marínó.

Ef við segjum að það að vera ekki með sjálfstæðan gjaldmiðil sé öðrum megin og frífljótandi sé hinum megin þá er næsta skref á eftir því að vera ekki með sjálfstæðan gjaldmiðil það að vera með einhvers konar myntráð sem er með nokkurs konar skipulagða bindingu við annan gjaldmiðil. Það er t.d. notað í Bosníu-Hersegóvínu og í Búlgaríu gagnvart evrunni. Gaman er að nefna að gengið á bosníska markinu, KM eða „konvertibilna marka“, er bundið við upprunalegt gengi á þýska markinu, hvernig það er. Síðan er hægt að tala um hefðbundna gengistengingu sem er mjög algeng og mörg Afríkuríki sem eru bundin við evruna með þeim hætti í gegnum Seðlabanka Frakklands. Það er til það sem er kallað stöðugleikafyrirkomulag sem bæði Króatía og Norður-Makedónía eru komin í. Síðan eru skríðandi gengistengingar og skriðlegar gengistengingar, sem eru aðeins opnari heldur en beinlínis skriðfyrirkomulag, svo er til gengistenging innan vikmarka og síðan loks fljótandi og frífljótandi.

Mig langar að tala aðeins á þessum tveimur eða þremur mínútum sem ég á eftir um skríðandi gengistengingu. Lengi vel, þegar Króatía var á sinni vegferð við að ganga í Evrópusambandið, og fleiri lönd hafa reyndar notað þetta, var skríðandi gengisfyrirkomulag notað þar til þess að taka einmitt þær sveiflur sem hv. þm. Sigríður Á. Andersen nefndi áðan. Mismunandi hagkerfi ganga í mismunandi takti og til þess að færa gengistaktinn á króatísku kúnunni smám saman nær gengisflöktþætti evrunnar var sagt: Það er ekki föst binding á gengisskráningu heldur er gengisskráningarviðmið sem er uppfært yfir ákveðin tímabil. Mig minnir að það hafi verið sex mánaða tímabil. Þá var tekið meðaltal af gengisflökti þess tíma og það var nýja viðmiðunargengið. Síðan var genginu leyft að flökta innan ákveðinna vikmarka út frá þessum viðmiðunarpunkti. Þetta fyrirkomulag er rosalega gott þegar við stundum umfangsmikil alþjóðaviðskipti við sérstaklega eina blokk ríkja af því að þá leyfum við bæði sérstöðu okkar, eigið flökt, við erum ekki að opna okkur algerlega gagnvart þeirri spákaupmennskuáhættu sem er til staðar varðandi fastbundið gengi eða fast akkeri, en við erum samt á sama tíma að miða hagkerfið okkar smám saman inn á samlögun við annan stærri gjaldmiðil. Þetta fyrirkomulag er notað víða, yfirleitt til skamms tíma og yfirleitt í þeim tilgangi að búa til betri samþættingu milli hagkerfa.

Ég saknaði þess að þetta fyrirkomulag væri skoðað til hlítar í skýrslunni um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Það var ekki einu sinni minnst á það, en mig gæti misminnt. En þetta er eitthvað sem ég held, og hef haldið mjög lengi og hef haldið ræður um áður á Alþingi, að sé einn af áhugaverðustu kostunum fyrir Ísland í gjaldeyrismálum næstu árin. Þetta nær bæði markmiðum okkar um nokkurs konar peningalegt sjálfstæði og markmiðum okkar um betri samþættingu við hagkerfi Evrópu og að geta svo unnið nánar með Evrópuríkjum. Þetta var svolítið óundirbúin ræða, herra forseti, en ég vona að hún hafi skilað sínu.