151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:26]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar framsögu. Það læðist samt að mér að hv. þingmaður líti svo á að hún eigi svolítið erfiðan málstað að verja hérna. Það birtist m.a. í því að hv. þingmaður kýs að tefla fram ýmsum alhæfingum. Ein alhæfingin er þessi: Veröldin er svart/hvít að því leytinu til að það er bara til sá kostur að vera aðili í fjölþjóðasamstarfi eða vera í tvíhliða samstarfi. Hlutirnir eru ekki alveg svona einfaldir, herra forseti. Hin alhæfingin er sú að hún leggur að jöfnu allt þetta ólíka samstarf sem við eigum í, ég nefni t.d. Atlantshafsbandalagið, Norðurlandaráð o.s.frv. Þetta er eðlisólíkt. Það gilda ólík sjónarmið og það er til komið af ólíkum ástæðum. Það að gerast aðili að Evrópusambandinu hefur mjög afdrifaríkar afleiðingar í för með sér. Er skemmst að minnast umræðunnar um þriðja orkupakkann þar sem liggur fyrir í áliti sérfræðinga og álitsgjafa ríkisstjórnarinnar að erlendir aðilar, og þá erum við að tala um aðila í þessu evrópska samstarfi, fái a.m.k. óbein áhrif á hagnýtingu og ráðstöfun íslenskra orkuauðlinda. Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur (Forseti hringir.) af því að það yrði fátt um varnir fyrir okkur og okkar orkuauðlindir (Forseti hringir.) ef við yrðum orðin aðilar að þessu sambandi?