151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:30]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég leyfði mér að segja áðan að mér sýndist að hv. þingmaður gerði sér grein fyrir því að hún á svolítið erfiðan málstað að verja. Hv. þingmaður hefur t.d. engu svarað spurningu minni um aðlögun að ytra áfalli. Þegar ég ræði hér um hættuna á stórfelldu atvinnuleysi, þegar sú aðlögun getur ekki farið fram um farveg gengis krónunnar heldur yrði afleiðingin mikið atvinnuleysi, þá ræðir hv. þingmaður um breytt samskipti aðila vinnumarkaðarins. Síðan verð ég að lýsa furðu minni á því að það skuli vera vísað til Icesave-deilunnar í greinargerð með tillögu hv. þingmanns. Ég man ekki betur en að ýmsir framámenn og áberandi menn í hennar flokki hafi viljað standa með Bretum og Hollendingum gegn íslenskum hagsmunum í Icesave-deilunni og sumir þeirra (Forseti hringir.) urðu náttúrlega þekktir fyrir það m.a. að standa fyrir samtökum sem keyptu auglýsingar með einhverjum hákarli til að reyna að hræða þjóðina (Forseti hringir.) til þess að játast undir þessar löglausu Icesave-kröfur. (Forseti hringir.) Þess vegna er ég undrandi á því að hv. þingmaður skuli ekki bara hafa það í sinni greinargerð heldur nefna það líka í sinni ræðu.

(Forseti (BHar): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörkin.)