151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:57]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að hæstv. ráðherra talar um tollasamninga, fríverslunarsamninga o.fl. þá gerir t.d. EFTA líka fríverslunarsamninga, eins og hæstv. ráðherra veit, m.a. með aðild Íslands. Það sama gerir ESB fyrir aðildarríki sín. ESB gerir fríverslunarsamninga við önnur ríki, bara þannig að það sé sagt. Það er alveg ljóst, eða mér finnst það frekar ljóst og þá verður hæstv. ráðherra bara að leiðrétta mig, að myndin sem hæstv. ráðherra dregur upp er frekar eins og þægilegra væri að fara leið Breta. Við erum smáríki miðað við Breta. Ekki nema að hæstv. ráðherra vilji að við verðum kjölturakki hjá Bretum, eins og hann talar stundum. Það er alveg ljóst að smáríkjum farnast betur og þeirra hagsmunum er betur borgið í samfloti ríkja. Ég nefndi í minni ræðu til að mynda reikisamninga og hvernig við hefðum staðið okkur varðandi stóru fyrirtækin, símafyrirtækin og hvernig hagsmunum neytenda hefði verið borgið fyrir utan innri markað Evrópusambandsins. Það er dæmi um hvernig Ísland græðir á því að vera í tengslum við Evrópusambandið. Það er á mörgum sviðum með þeim hætti.

Virðulegur forseti. Ég ætla að fagna því — hæstv. utanríkisráðherra verður þá bara að leiðrétta mig en ég ætla að leyfa mér að skilja hann þannig að hann sé ekki á móti tillögunni, að leyfa þjóðinni að ákveða næsta skref. Ég ætla að taka það með úr þessari umræðu og skilja eftir alla leikjafræðina og taktíkina. En ég skil hæstv. ráðherra þannig, og þá verður hann bara að leiðrétta mig, að hann treysti þjóðinni (Forseti hringir.) til að taka þetta skref og fá tækifæri til að taka þetta skref og þá á eigin forsendum (Forseti hringir.) að meta hvort rétt sé að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið.